Veirur og vísindasaga - málþing um vísindi og samfélag


Vísindafélagið stendur fyrir málþingi um veirur og vísindasögu í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 7. apríl kl. 13.30. Öll velkomin.

Flutt verða þrjú erindi þar sem sjónum verður bæði beint almennt að íslenskri vísindasögu og tilteknum þætti hennar í fortíð og nútíð, þ.e. hvernig rannsóknir á sauðfjársjúkdómum á tilraunastöðinni að Keldum hafa nýst til skilnings á HIV-veirunni og í baráttunni við hana. Sá hluti er ekki einungis sögulegur því að mikilvægar uppgötvanir hafa verið gerðar í nýjustu rannsóknum á Keldum sem skipta máli fyrir samtímann og framtíðina. Sigurður Guðmundsson, prófessor við læknadeild HÍ, segir frá arfleifð Björns Sigurðssonar sem kom á fót tilraunastöðinni að Keldum um miðja 20. öld og gerði merkar rannsóknir á mæði-visnuveirunni í sauðfé sem reyndust löngu síðar ómetanlegar við rannsóknir á HIV-veirunni. Valgerður Andrésdóttir, sameindalíffræðingur á Keldum, gerir síðan grein fyrir nýlegum rannsóknum á mæði-visnuveiru og tekur dæmi um hvernig þær hafa nýst til skilnings á HIV-veirunni og í baráttunni við hana. Einnig fjallar Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus, um sögu íslenskra vísinda síðustu öldina og tekur dæmi um gagnkvæma víxlverkun vísinda og samfélags, þ.e. ýmiss konar áhrif vísindanna á líf fólks og störf en einnig fjölbreytt áhrif samfélagsins á vísindin, verkefnaval og afurðir.

Málþingið er það fyrsta af sex sem Vísindafélag Íslendinga stendur fyrir á árinu um vísindi og samfélagslegar áskoranir í tilefni af aldarafmæli bæði félagsins og fullveldis Íslands. Hlutdeild vísindanna í íslenskri menningu frá fullveldi verður m.a. skoðuð á málþingunum en ekki síður er ætlunin að stuðla að almennri umræðu um samhengi vísindanna við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga.

Erindi Þorsteins Vilhjálmssonar á málþinginu nefnist "Vísindin og þjóðin – í hundrað ár" og hann lýsir því svo: Sú starfsemi sem við köllum vísindi er býsna fjölskrúðug og hefur bæði margvísleg og víðtæk áhrif á líf okkar og störf, vonandi yfirleitt til góðs. Samfélagið hefur líka fjölbreytt áhrif á vísindin, verkefnaval þeirra og afurðir. Í erindinu verður reynt að sýna þennan fjölbreytileika með dæmum um gagnkvæma víxlverkun vísinda og samfélags á síðustu öld, og eru þá bæði orðin, vísindi og samfélag, notuð í víðri merkingu. Jafnframt kemur glöggt í ljós að vísindin hafa mikið nytjagildi í samfélaginu, hvort sem litið er til beinharðra peninga eða annarra verðmæta. Segja má að við lítum hér á vísindin eins og garð sem þarf að hlúa að og rækta með alúð og aga ‒ og, ekki síst, í samhengi við umhverfið. Þannig verður garðurinn komandi kynslóðum bæði til ánægju og hagsbóta. Við sem tökum þátt í ræktuninni þurfum að halda þessu stöðugt til haga; það stendur engum öðrum nær en okkur!

 

Sigurður Guðmundsson nefnir erindi sitt "Arfleifð Björns Sigurðssonar" og gerir svohljóðandi grein fyrir efninu: Björn Sigurðsson læknir (1913‒1959) var líklega einn fremsti vísindamaður úr hópi lækna sem hérlendis hafa starfað. Hann lést fyrir aldur fram, aðeins 46 ára gamall. Hins vegar liggur eftir hann merkt ævistarf. Hann kom á fót Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, að fengum styrk frá Rockefeller-stofnuninni. Þekktastur er hann vegna skilmerkja sem hann setti fram um hæggengar sýkingar sem hann nefndi annarlega hæggenga smitsjúkdóma. Hann byggði að mestu á rannsóknum sínum á mæði/visnu og riðu í sauðfé. Síðar varð ljóst að þessar hæggengu sýkingar voru af mismunandi toga, visna/mæði af völdum lentiveiru og riða af völdum smitandi próteina, príona. Mæði/visna reyndist svo náskyld HIV-veirunni. Þegar alnæmi kom upp um 20 árum eftir dauða Björns varð ljóst að sjúkdómsgangur féll mjög að skilgreiningu Björns á hæggengum sýkingum. Vart er sú grein skrifuð nú um gang HIV-sýkingar að ekki sé vitnað til verka Björns.

 

Erindi Valgerðar Andrésdóttur nefnist "Mæði-visnuveira og HIV; margt er líkt með skyldum" og hún gerir grein fyrir því á eftirfarandi hátt:  Mæði og visna eru sauðfjársjúkdómar sem bárust til landsins með innflutningi á karakúl­fé árið 1933. Þessir sjúkdómar voru rannsakaðir á Keldum og á grundvelli þeirra rann­sókna setti Björn Sigurðsson fram kenningar um nýjan flokk smitsjúkdóma, hæg­genga smitsjúkdóma. Veiran sem olli þessum sjúkdómum er retróveira og er flokkurinn nefndur lentiveirur (lentus=hægur).
Árið 1983 var skýrt frá áður óþekktri veiru af flokki retróveira sem hafði ræktast úr eitil­frumum sjúklings með forstigseinkenni alnæmis. Fljótlega kom í ljós að veiran var skyld mæði-visnuveiru og var flokkuð með lentiveirum og nefnd HIV.
HIV er nú mest rannsökuð af öllum veirum en þó er langt frá því að öll kurl séu komin til grafar. Enn hefur hvorki tekist að finna bóluefni við veirunni né lækningu. Þeir sem sýkjast þurfa að taka lyf alla ævi til að halda veirunni í skefjum en læknast aldrei. Enn er því þörf á rannsóknum á eðli þessara veira og getur mæði-visnuveiran verið gott líkan fyrir HIV.
Í fyrirlestrinum verða tekin tvö dæmi um það hvernig rannsóknir á mæði-visnuveiru hafa nýst til skilnings á HIV. Fyrra dæmið er rannsóknir á byggingu innlimunar­ensímsins integrasa, en veiran notar þetta ensím til þess að innlima erfðaefni sitt í litninga hýsilfrumunnar sem hún hefur sýkt og er það meginástæðan fyrir því að veiran veldur ævilangri sýkingu. Þessi innlimun er eitt af lyfjamörkum fyrir HIV.
Annað dæmi er rannsóknir á veiruvörnum í frumum líkamans. Komið hefur í ljós að frumur manna og dýra hafa komið sér upp margháttuðum vörnum gegn lentiveirum en veirurnar hafa fundið leiðir fram hjá þessum vörnum, hver í sínum hýsli. Rannsóknir á veiruvörnum gegn mæði-visnuveiru hafa leitt í ljós nýja gerð veiruvarna sem getur nýst í baráttunni við HIV.

Til baka

 

Vísindafélag Íslendinga var stofnað hinn 1. desember 1918 af nokkrum kennurum við Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra var að stofna félagsskap íslenskra vísindamanna, á öllum sviðum vísinda, er hefði það markmið að efla vísindastarfsemi í landinu og styrkja stöðu vísinda í íslenskri menninguFélagið hefur starfað undir þeim formerkjum allar götur síðan og gerir enn.  Félagið hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár, með með það að marki að vinna enn betur að því að styrkja stöðu vísinda í íslensku samfélagi og menningu.

Félagið starfar óháð stofnunum og þvert á fræðigreinar og er því frjór vettvangur vísindaumræðu í íslensku samfélagi.

Félagið stendur fyrir hinum ýmsu málfundum.  Þar má nefna umræðufundi um handhafa Nóbelsverðlauna hvers árs, þar sem vísindamenn kunnugir verkum viðeigandi verðlaunahafa kynna rannsóknir og störf þeirra. Hafa fundirnir verið mjög vel sóttir.

Jafnframt hefur Vísindafélagið haldið málfundi um háskólamál og vísindamál og tekið á þeim málum sem hæst bera á hverri stundu, auk þess að hafa frumkvæði á umræðu á einstaka málaflokkum.

 

 

Síða Vísindafélagsins á fésbókinni