Sunnudaginn 1. des. 1918 komu tíu kennarar við Háskóla Íslands á fund að boði prófessoranna Ágústs H. Bjarnasonar og Sigurðar Nordals og samþykktu þeir að stofna félag til að efla vísindastarfsemi í landinu. Sá dagur er talinn stofndagur Vísindafélags Íslendinga. Félagsmenn voru upphaflega “"þeir núverandi fastir kennarar við Háskóla Íslands, er þess óska".” Fyrstu stjórn félagsins skipuðu: Ágúst H. Bjarnason, forseti, Einar Arnórsson, ritari og Guðmundur Finnbogason, gjaldkeri. Upphaflegur fjöldi félagsmanna var 13, en nú eru reglulegir félagsmenn 144 og að auki þeir sem náð hafa sjötugsaldri og bréfafélagar, sem búsettir eru erlendis. Félagið heldur vanalega fund seinasta miðvikudag í hverjum vetrarmánuði og eru bókfærðir fundir nú alls 493 auk ráðstefna. Félagið stundaði allmikla útgáfustarfsemi, hefur gefið út yfir 60 rit og er einna mest rit í fjórum bindum um Heklugosið 1947–48. Seinast gaf Vísindafélagið út Afmælisrit 1918–1998 árið 2000.