Um félagið

Vísindafélag Íslendinga (nú Vísindafélag Íslands) var stofnað 1. desember 1918 af nokkrum kennurum við Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra var að stofna félagsskap íslenskra vísindamanna á öllum sviðum vísinda sem hefði það markmið að efla vísindastarfsemi í landinu og styrkja stöðu vísinda í íslenskri menningu. Félagið hefur starfað undir þeim formerkjum allar götur síðan.

Félagið starfar óháð stofnunum og þvert á fræðigreinar og er því frjór vettvangur vísindaumræðu í íslensku samfélagi.

Félagið stendur fyrir ýmsum málfundum, m.a. umræðufundum um handhafa Nóbelsverðlauna hvers árs, þar sem vísindamenn kunnugir verkum viðeigandi verðlaunahafa kynna rannsóknir og störf þeirra.

Jafnframt hefur Vísindafélagið haldið málfundi um háskólamál og vísindamál og tekið á þeim málum sem hæst bera á hverri stundu, auk þess að hafa frumkvæði að umræðu um einstaka málaflokka.

Á aldarafmælinu árið 2018 stóð félagið m.a. fyrir röð málþinga um vísindi og samfélagslegar áskoranir og hefur einnig efnt til samstarfs við Vísindavefinn um dagatal íslenskra vísindamanna.

Í júní 2019 var nafni félagsins breytt og það heitir nú Vísindafélag Íslands.