Aldarafmæli Vísindafélags Íslendinga

Vísindafélag Íslendinga fagnaði aldarafmæli sínu þann 1. desember 2018 með afmælismálþingi á Kjarvalsstöðum. Setja má stofnun félagsins í beint samhengi við samþykkt sambandslaganna 1918 og þær framtíðarvonir sem þau glæddu, m.a. fyrir vísindastarf á Íslandi.

Frá aldarafmælinu

Yfirskrift þingsins var „Vísindafélag hverra?“ og var sjónum beint að sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, hvernig hún hefur mótast og verið mótuð í gegnum tíðina.

Fræðimenn á sviði listrannsókna, mannfræði, stjórnmálafræði og sagnfræði skoðuðu hugmyndir um íslenska þjóð og íslenskt þjóðríki frá ýmsum sjónarhornum og veltu því fyrir sér hvort og hvernig komandi kynslóðir muni bera þær hugmyndir áfram inn í aðra öld fullveldis.

Myndbandsupptökur af málþinginu (YouTube)

Hljóðupptöku af hverju erindi fyrir sig má finna hér á eftir.

Erindi:

Erna Magnúsdóttir, forseti Vísindafélags Íslendinga

Ávarp Ernu Magnúsdóttur, forseta Vísindafélags Íslendinga

 

 

Þjóðerni, kvenréttindabarátta og Alþingishátíðin 1930 

Sigríður Matthíasdóttir, sagnfræðingur fjallar um kvenréttindabaráttu þriðja áratugar 20. aldar og hugmyndir um þjóðernið sem karllegt fyrirbæri og setur í samhengi við Alþingishátíðina 1930.

 

 

Myndmál fullveldisins 

Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), Rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands  rekur uppruna, helgun og afhelgun myndmáls þjóðarinnar, tilurð skjaldarmerkis fullveldisins, fjallkonunnar og fánans.

 

 

Þjóð, tunga og innflytjendur 

Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands veltir upp hugmyndum um íslenskt þjóðerni og beinir sjónum meðal annars að hlutverki tungumálsins í að skilgreina hverjir geti gert tilkall til íslenska þjóðernisins.

 

 

Fullveldið og merking þess á nýrri öld

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst ræðir um merkingu fullveldisins í hugum Íslendinga í sögu og samtíð. Farið er yfir fullveldisbaráttuna á nítjándu öldinni og áhrifum fullveldisins á þeirri tuttugustu. Þá eru utanríkissamskipti Íslands skoðuð út frá bæði praktískri sem og huglægri merkingu fyrirbærisins á tuttugustu og fyrstu öldinni.

 

 

Verðandi vísindamaður

Málþingið var hluti af röð málþinga um vísindi og samfélagslegar áskoranir sem Vísindafélags Íslendinga stendur fyrir í tilefni af aldarafmæli félagsins. Hlutdeild vísindanna í íslenskri menningu frá fullveldi er m.a. skoðuð á málþingunum en félagið var stofnað sama dag og Ísland varð fullvalda ríki með það í huga að öflug vísindastarfsemi væri þjóðinni nauðsynleg til að dafna. Ekki síður er þó hugmyndin að stuðla að almennri umræðu um samhengi vísindanna við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga.