Nóbelsverðlaunin í efnafræði 2020

Þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Vísindafélags Íslands um Nóbelsverðlaunin 2020 fór fram á Zoom miðvikudaginn 4. nóvember klukkan 12.

Þar greindi Sigríður Rut Franzdóttir, dósent í líffræði við Líf – og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands frá rannsóknum nóbelsverðlaunahafanna í efnafræði 2020, þeirra Emmanuelle Charpentier og Jennifer A. Doudna sem hlutu verðlaunin fyrir þróun DNA raðbreytingartækni sem hefur gjörbylt rannsóknum í lífvísindum á aðeins átta árum. Bakteríur eiga sínar sértæku varnir gegn veirum og öðru framandi erfðaefni, svokölluð CRISPR kerfi sem mætti kalla DNA-bókasafn minninga um fyrri sýkingar viðkomandi stofna. Kerfin byggja í stuttu máli á því að stýra rofi kjarnsýra á raðsértækan hátt með aðstoð RNA. Charpentier og Doudna sýndu fram á hvernig kerfið virkar í Streptococcus pyogenes og að hægt væri að einfalda og forrita kerfið til að klippa næstum hvaða tvíþátta-DNA sem er. Þetta var upphafið að CRISPR byltingunni en tæknin gerir vísindamönnum kleift að raðbreyta erfðaefni á markvissan hátt í nær hvaða lífveru sem er, t.d. til að fella út genavirkni, skjóta inn erfðaefni eða gera við galla í erfðaröðum. Horft er til þessarar tækni sem lækningaraðferðar en notkun hennar til að raðbreyta erfðaefni varanlega í kímlínu mannsins er umdeild. Tæknin hefur einnig opnað nýjar víddir í rannsóknum á genastarfssemi í lífverum sem ekki teljast til hefðbundinna tilraunalífvera. Mikil þróun hefur átt sér stað síðan 2012 og fjölmörg afbrigði CRISPR tækni hafa komið fram sem nýtast í ólíkum tilgangi. Charpentier og Doudna eru einungis sjötta og sjöunda konan til að hljóta Nóbelsverðlaun í efnafræði sem hafa verið afhent 112 sinnum frá árinu 1901 og er þetta í fyrsta skipti sem tvær konur deila verðlaununum.

Sigríður Rut Franzdóttir er dósent í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hún lauk BS gráðu í líffræði og síðar meistaraprófi í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands. Árið 2008 lauk hún doktorsprófi í líffræði frá Háskólanum í Münster í Þýskalandi, þar sem hún rannsakaði samspil taugafruma og fylgifruma í þroskun auga ávaxtaflugna. Frá árinu 2009 hefur hún starfað við Háskóla Íslands við kennslu og rannsóknir, með áherslu á greiningu á hlutverkum sameinda í taugafrumum, þroskun og þróun. Við rannsóknirnar er CRISPR tækni beitt til að framkalla og gera við sjúkdómsbreytingar í mannafrumum og til að útbúa verkfæri til smásjárgreiningar á hegðun stakra próteina innan fruma í lifandi ávaxtaflugum.