Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 2019

Eðlisfræði alheimsins og fjarreikistjörnur

Vísindafélag Íslands og Eðlisfræðifélag Íslands stóðu fyrir hádegisfyrirlestri þriðjudaginn 7. janúar 2020 í Þjóðminjasafninu þar sem eðlisfræðingarnir Lárus Thorlacius, doktor frá Princeton háskóla í New Jersey í Bandaríkjunum, og Guðmundur Kári Stefánsson, doktor í stjarneðlisfræði frá Pennsylvania State University, kynntu verðlaunahafana, kanadíska vís­indamanninn James Peebles og Sviss­lend­ing­ana Michel Mayor og Didier Qu­eloz sem hlutu Nó­bels­verðlaun­in í eðlis­fræði árið 2019 fyr­ir fram­lag sitt til að auka skiln­ing manna á eðli og þróun al­heims­ins og fyr­ir að upp­götva plán­etu á braut um fjar­læga stjörnu.

Fyrirlesturinn var einkar vel sóttur af áhugafólki um eðlisfræði á öllum aldri. Brunaaðvaranir trufluðu fyrirlesara nokkrum sinnum eins og sjá og heyra má á upptöku en það kom ekki að sök, enda efnið afskaplega áhugavert og vel fram sett.

Posted by Vísindafélag Íslands on Þriðjudagur, 7. janúar 2020
Athugið að fyrirlesturinn hefst á mínútu 9.19 á þessari upptöku

Lárus flutti erindi sem nefnist Eðlisfræði alheimsins en hann starfar sem prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands.

Í heimsfræði er alheimurinn í heild skoðaður sem eðlisfræðikerfi. Rekja má upphaf nútíma heimsfræði til ársins 1964 og uppgötvunar örbylgjukliðsins, geislunar sem berst til jarðar úr öllum áttum utan úr geimnum. Örbylgjukliðurinn er endurómur frá miklahvelli, þegar alheimurinn spratt fram úr óhemju þéttu og heitu upphafsástandi. Nóbelsverðlaunahafinn James Peebles hefur helgað heimsfræðinni ævistarf sitt. Hann kom ungur fram með rétta túlkun örbylgjukliðsins og hefur öðrum fremur lagt grunninn að umsköpun heimsfræðinnar úr ómarkvissum vangaveltum í fullþroska fræðigrein þar sem ítarlegir fræðilegir útreikingar styðja við nákvæmnismælingar.

Guðmundur flutti erindi sem nefnist Fjarreikistjörnur en hann starfar sem stjarneðlisfræðingur við Princeton háskóla í Bandaríkjunum. 

Árið 1995 fundu svissnesku stjarneðlisfræðingarnir Michel Mayor og Didier Queloz fyrstu fjarreikistjörnuna, 51 Pegasi b, á sporbraut annarrar stjörnu svipaðri sólu. Þessi fjarreikistjarna var ólík öllu því sem menn höfðu búist við: 51 Peg b reyndist heitur gasrisi með tvöfaldan massa Júpíters og örstuttan 4 daga umferðartíma—ólíkt öllum plánetum sólkerfisins. Þessi uppgötvun breytti skilningi vísindamanna á myndun og þróun reikistjarna og opnaði dyr að einni virkustu undirgrein stjörnufræðinnar í dag. Síðan hafa yfir 4000 fjarreikistjörnur fundist með mismunandi aðferðum sem sýnir fram á mikinn fjölbreytileika sólkerfa. Þessar mælingar hafa breytt sýn okkar á sérstöðu jarðarinnar í alheiminum: við vitum nú að flestar stjörnur í Vetrarbrautinni hafa að meðaltali að minnsta kosti eina reikistjörnu á sporbraut um sig. Í þessu erindi verður rætt um aðdraganda uppgötvunarinnar á 51 Pegasi b og mikilvægi hennar innan stjarneðlisfræðinnar. Þá verður horft til framtíðar og velt fyrir sér mögulegum niðurstöðum sem nýjustu geimsjónaukar gætu gefið okkur um efnasamsetningu lofthjúpa nálægra fjarreikistjarna.