Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2019

Vísindafélag Íslands stóð fyrir fræðsluerindi um nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2019 á Þjóðminjasafninu miðvikudaginn 6. nóvember en þau hlutu vísindamennirnir William G. Kaelin Jr. við Harvard-háskóla, Sir Peter J. Ratcliffe við Francis Crick-stofnunina í London og Gregg L. Semenza við Johns Hopkins-háskóla. Erindið flutti Magnús Karl Magnússon, læknir og prófessor við Læknadeild HÍ sem hefur á síðustu árum einnig starfað við Íslenska erfðagreiningu og meðal annars stundað erfðarannsóknir á blóðmyndun.

Í umsögn Nóbelsnefndarinnar segir að þeir hafi með rannsóknum sínum skapað grundvöll fyrir skilning á því hvernig súrefnismettun hafi áhrif á efnaskipti í frumum og lífeðlisfræðilega virkni.

Í erindinu var sagt frá þeim grundvallaruppgötvunum er leiddu til skilnings á súrefnisskynjun frumunnar. Þessar uppgötvanir hafa afhjúpað kerfi sem getur brugðist við mismunandi súrefnisástandi með hröðum og skilvirkum hætti, en auk þess að varpa þessar uppgötvanir ljósi á ýmis sjúkdómsferli, svo sem í krabbameinum og blóðmyndun.