Lög félagsins

eftir framhaldsaðalfund 29. apríl 2009.

1. grein.

Félagið heitir Vísindafélag Íslendinga (Societas scientiarum Islandica).

2. grein.

Heimili félagsins er í Reykjavík.

3. grein.

Tilgangur félagsins er að styðja vísindalega starfsemi, einkum með þeim hætti sem er lýst í 4.–6. grein.

4. grein.

Í félaginu skal stefnt að því að halda fundi mánaðarlega á tímabilinu frá 1. september til 31. maí. Á hverjum fundi skal fyrirlestur fluttur eða umræður hafðar um eitthvert efni er að vísindum lýtur. Stjórn félagsins boðar félagsmönnum þess á Íslandi fundi með hæfilegum fyrirvara.

Ef ástæða þykir til getur félagið haldið eða átt hlut að almennari fundum eða ráðstefnum. Skal stjórn félagsins kynna viðfangsefni þeirra með hæfilegum fyrirvara á félagsfundi, sbr. einnig ákvæði 13. greinar.

5. grein.

Eftir því sem tök reynast á gefur félagið út rit eða ritgerðir sem því berast til birtingar eða samin eru í samráði við það og þess þykja verð. Slíkum ritum eða ritgerðum skal fylgja álitsgerð tveggja eða fleiri vel dómbærra manna, sem stjórn félagsins metur gilda. Stjórnin getur ennfremur leitað umsagnar annarra sérfróðra manna, áður en ákvörðun er tekin um útgáfu ritsins. Stjórn félagsins sér um útgáfu rita þess og ritgerða, en getur ráðið menn til að annast útgáfu tiltekinna rita.

6. grein.

Félagið getur ennfremur veitt mönnum kost á að vinna til verðlauna eða annarrar sæmdar fyrir úrlausn verkefna er það setur. Getur félagið falið mönnum, einum eða fleirum, að ákveða slík verkefni og dæma úrlausnir er koma kynnu.

7. grein.

Félagsmenn eru: Reglulegir félagsmenn, heiðursfélagar og bréfafélagar. Reglulegir félagsmenn geta þeir orðið sem sýnt hafa fram á sjálfstæðan og viðurkenndan vísindaferil í samræmi við kröfur sem gerðar eru í 8. grein.

Árgjald greiða reglulegir félagsmenn, og er upphæð þess ákveðin á aðalfundi. Stjórn félagsins getur, ef sérstaklega stendur á, undanþegið menn frá greiðslu félagsgjalda. Reglulegir félagsmenn greiða árgjald í síðasta skipti á því almanaksári sem þeir verða sjötugir.

Hafi reglulegur félagsmaður eigi greitt félagsgjald í fimm ár alls eða þrjú ár samfleytt, telst hann hafa sagt sig úr félaginu. Ætíð skal þó gefa félagsmanni kost á að greiða ógreidd árgjöld áður en hann er felldur brott af skrá yfir félagsmenn. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

8. grein.

Umsókn um aðild að félaginu skal berast forseta félagsins ásamt feril- og ritaskrá á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Stjórn félagsins metur vísindalega hæfni umsækjenda á grundvelli menntunar og vísindastarfa. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi sýnt fram á sjálfstæðar rannsóknir og birtingu þeirra í viðurkenndum og ritrýndum vísindaritum (bókum eða tímaritum). Stjórnin hefur heimild til að skipa þriggja manna valnefnd sér til aðstoðar ef þurfa þykir. Einfaldur meirihluti stjórnarmanna þarf að vera samþykkur inntöku nýrra félagsmanna.

9. grein.

Heiðursfélaga má aðeins kjósa eftir einróma tillögu félagsstjórnar. Kosning heiðursfélaga getur farið fram hvort heldur er á aðalfundi eða almennum félagsfundi, en jafnan skal tillögu um slíka kosningu getið í skriflegu fundarboði. Sú kosning ein er lögmæt, sem er mótatkvæðalaus. Að öðru leyti gilda ákvæði síðustu málsgreinar 8. greinar um kosningu þessa. Hlutgengi heiðursfélaga til félagsþátttöku er í engu minna en reglulegs félagsmanns, en hvorki leggst á hann árgjald né skylda til kjörgengis.

10. grein.

Bréfafélagar Vísindafélags Íslendinga eru vísindamenn búsettir erlendis, kjörnir ævilangt af félaginu. Flytji reglulegur félagsmaður búsetu sína af Íslandi til langdvalar erlendis, ber honum réttur til að vera þar bréfafélagi Vísindafélagsins. Ef bréfafélagi flyst til Íslands gerist hann þar sjálfkrafa reglulegur félagsmaður, án tillits til ákvæða 7. greinar um fjölda félagsmanna.

Stjórn félagsins heldur uppi sambandi við bréfafélagana, meðal annars með því að kynna þeim starfsemi þess og önnur íslensk málefni, eftir því sem ástæða þykir til. Engin gjaldskylda né aðrar beinar félagsskyldur hvíla á bréfafélögum, enda hafa þeir eigi atkvæðisrétt um málefni félagsins. Með kjör bréfafélaga skal farið eins og með kjör reglulegra félagsmanna, sjá 8. grein.

11. grein.

Stjórn félagsins skipa fimm menn, forseti, ritari, féhirðir og tveir meðstjórnendur. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára hver um sig og þannig hagað, ef kostur er á, að eigi sé skipt um fleiri en þrjá stjórnarmanna í senn. Nú hlýtur enginn þeirra sem í kjöri eru meirihluta greiddra atkvæða, og skal þá fara fram bundin kosning um þá er fengið hafa hæstar atkvæðatölur, og ræður þá afl atkvæða. Hlutkesti ræður ef tveir eða fleiri fá jafnmörg atkvæði.

Tvo varameðstjórnendur skal kjósa með þeim hætti er segir í 1. málsgrein. Fráfarandi forseti á sæti með tillögurétti á stjórnarfundum eitt ár eftir að hann lætur af formennsku. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara til eins árs í senn til að skoða og árita reikninga félagsins. Stjórnar- og nefndarstörf í félaginu eru ólaunuð, nema sérstaklega standi á og aðalfundur heimili greiðslu.

12. grein.

Stjórnin annast allar framkvæmdir félagsins, þær er eigi eru sérstaklega lagðar undir félagsfund eða einstaka menn (sbr. 6. grein).

13. grein.

Á félagsfundum ræður afl atkvæða, sbr. þó 8., 9. og 15. grein. Á félagsfundum má ekki gera ályktun um neitt félagsmálefni sem eigi hefur verið greint í skriflegu fundarboði, nema því aðeins að á fundi sé meira en helmingur atkvæðisbærra félagsmanna.

14. grein.

Aðalfundur skal haldinn lagi í marsmánuði ár hvert. Á aðalfundi skulu þessi mál tekin til meðferðar:

  1. Stjórnin skýrir frá störfum félagsins síðastliðið starfsár.
  2. Áritaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
  3. Ákvörðun árgjalds, sbr. 7. grein.
  4. Tillögur um lagabreytingar, ef fram koma, sbr. 15. grein.
  5. Kosning stjórnarmanna, sbr. 11. grein.
  6. Kosning skoðunarmanna reikninga,, sbr. 11. grein.
  7. Kosning nýrra félagsmanna, hafi tillögur þar um komið fram, sbr. 8. grein.
  8. Önnur mál.

15. grein.

Lögum félagsins má eigi breyta nema á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu komnar til stjórnar félagsins svo snemma, að hún geti lagt þær fyrir félagsfund til umræðu og síðan sent þær ásamt breytingartillögum, sem gerðar kunna að vera á fundinum, öllum atkvæðisbærum félagsmönnum í fundarboði til aðalfundar. Lagabreytingar má því aðeins bera upp til samþykktar á aðalfundi, að þar sé helmingur atkvæðisbærra félagsmanna hið fæsta, og telst hún eigi samþykkt, nema 2/3 fundarmanna greiði atkvæði með henni.

Nái lagabreytingar eigi fram að ganga á aðalfundi sökum ónógrar fundarsóknar skal haldinn framhaldsaðalfundur innan sex vikna, og er þá heimilt að bera upp til samþykktar tillögur til lagabreytinga án tillits til fundarsóknar.