Friðarverðlaun Nóbels 2020

Fjórði og síðasti fyrirlesturinn í árlegri fyrirlestraröð Vísindafélags Íslands um Nóbelsverðlaunin var haldinn á Zoom föstudaginn 6. Nóvember kl 12.

Þar kynntu Bryndís Eva Birgisdóttir prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Stefán Jón Hafstein, sendiherra Íslands hjá World Food Programme og FAO í Róm, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem hlaut friðarverðlaun Nóbels í ár fyrir viðleitni sína í baráttunni gegn hungri, fyrir framlag sitt til að skapa skilyrði fyrir friði á átakasvæðum og fyrir að vera hreyfiafl í vinnu gegn notkun hungurs sem vopn í stríði og átökum. Þó að mikið hafi áunnist í baráttunni við hungur í heiminum síðustu ár og áratugi er talið að á hverjum degi nái um 690 miljónir manna ekki að fullnægja næringarþörf. Matvælastofnunin er í dag virk í um 80 löndum en Íslendingar styðja þessa merku stofnun sem hluta af framlagi Íslands til alþjóðamála. Veiting verðlaunanna er sérstaklega mikilvæg þar sem ljósi er varpað á fæðuöryggi og þá fjölmörgu þætti sem geta þar haft áhrif, ekki síst á tímum loftslagsbreytinga. Ekkert hungur er eitt af Heimsmarkmiðunum Sameinuðu þjóðanna, en eins og áhersla norsku nóbelsnefndarinnar sýnir hefur það kröftugan snertiflöt við annað markmið sem snýr að Friði og réttlæti.

Bryndís Eva Birgisdóttir er prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (HÍ). Að loknu grunnnámi í næringarfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi og Karolínska hélt hún áfram námi í klínískri næringarfræði við Háskólann í Gautaborg. Eftir doktorspróf í næringarfræði frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands 2002 var hún áfram við rannsóknir við HÍ og síðar Norsku lýðheilsustofnunina í Osló til ársins 2013. Bryndís Eva hefur eftir heimkomu meðal annars kennt lýðheilsunæringarfræði þar sem áhersla er á næringu, fæðuöryggi og sjálfbærni fæðukerfa á alþjóðlegum nótum.

Stefán Jón Hafstein er sendiherra Íslands hjá World Food Programme og FAO í Róm.  Hann á að baki feril við þróunarsamvinnustörf í þremur ríkjum Afríku og hjá Þróunarsamvinustofnun, sem nú er orðin hluti af Utanríkisráðuneytinu.  Stefán Jón starfaði í Namibíu, Malaví og Úganda og hefur því kynnst WFP á vettvangi, auk þess sem hann hefur nú verið í hlutverki sem erindireki Íslands í höfuðstöðvunum í nærri þrjú ár.
Stefán Jón er með MA gráðu í boðskiptafræðum frá University of Pennsylvaníu, og með diplómapróf frá HÍ í þróunarfræðum, auk þess sem hann hefur tekið fjölda stakra  námskeiða í greinum tengdum þróunarsamvinnu, hjá Harvard, MIT og Oxford University svo nokkuð sé nefnt.