Upptaka af málþingi sem fram fór á Zoom 24. 11. 2020.
Það er ljóst að Covid-19 faraldurinn snertir ekki aðeins einstaklinga og þjóðlönd heldur er hann alheimsvandi sem þarf að leysa með áður óþekktum aðferðum. Vísindafélag Íslands boðaði til málþingsins „Covid sem alheimsverkefni“ þar sem fjallað var um þær sameiginlegu áskoranir sem þjóðir heims standa frammi fyrir í kjölfar faraldursins. Málþingið fór fram á ensku.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ, ræddi um siðferðileg álitamál sem upp hafa komið varðandi Covid. Flest erum við væntanlega sammála um að það sé mikilvægt að standa vörð um líf og heilsu fólks og veita góða heilbrigðisþjónustu en jafnframt um mikilvægi einstaklingsfrelsis, atvinnufrelsis, samkomufrelsis, réttar til einkalífs osfrv. Þarna eru í húfi margir mismunandi hlutir sem allir hafa mikið siðferðilegt vægi en togstreita getur skapast um það hvernig best sé að forgangsraða þeim þegar þess gerist þörf.
Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla SÞ, ræddi umhverfismál í samhengi við heimsfaraldurinn,fjallaði um áhrif COVID-19 á umhverfið og þann lærdóm sem við getum dregið af heimsfaraldrinum og mikilvægi þess að endurreisnin verði í anda sjálfbærrar þróunar.
Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ kynnti niðurstöður úr rannsókn á því hvaða einstaklingsbundnu og samfélagslegu þættir tengjast þátttöku einstaklinga í sóttvarnaraðgerðum í COVID-19 faraldrinum hérlendis (á tímabilinu 1. apríl til 26. október). Rannsóknin kann að verða grundvöllur fyrir að þróa aðferðir til að auka þátttöku í sóttvarnaraðgerðum þegar alvarlegar farsóttir ganga yfir.
Lisa Herzog, prófessor í heimspeki við University of Groeningen ræddi rammann um sanngjarna útdeilingu bóluefnis eða Fair Priority Model sem er þróun aðferðar til að fá þrjá lykilaðila, framleiðendur bóluefnis, World Health Organisation og ríkisstjórnir til að vinna saman að því að bóluefni gegn veirunni verði dreift á sem sanngjarnastan og skilvirkastan hátt þegar að því kemur.
Fundarstjóri var Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði
Um fyrirlesarana:
Eyja Margrét Brynjarsdóttir er prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands. Á síðari árum hefur hún aðallega fengist við rannsóknir innan félagslegrar heimspeki og á þessu ári komið að verkefnum á Íslandi þar sem hún hefur skoðað heimspekileg álitamál varðandi COVID-19.
Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans á síðustu misserum hafa einkum beinst að fjöldahegðun og óformlegri stjórnmálahegðun.
Hafdís Hanna Ægisdóttir er með doktorspróf í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Basel í Sviss. Hún var forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í yfir áratug en starfar nú sem verkefnisstjóri hjá Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands.
Lisa Herzog er prófessor í heimspeki við miðstöð heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði við Háskólann í Groeningen og starfar helst á mörkum stjórnmálaheimspeki og hagfræðirannsókna.