Að nota íslensku í tölvum og tækjum

Laugardaginn 3. nóvember stóð Vísindafélag Íslendinga fyrir málþingi í samstarfi við Háskólann í Reykjavík um máltækni.

Það hvernig tungumál og tölvutækni vinna saman verður æ stærri og mikilvægari þáttur í samfélaginu og sumir hafa jafnvel tekið svo djúpt í árinni að segja framtíð íslenskrar tungu hvíla á því hvernig til muni takast að búa til íslenska máltækni.

Fundarstjóri var Hrafn Loftsson, dósent við Háskólann í Reykjavík

Myndbandsupptaka af málþinginu (YouTube)


Hér má finna nánari upplýsingar um hvern fyrirlestur fyrir sig.

 

Íslensk máltækni í 20 ár.

Fyrirlesari: Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Þótt fáein verkefni máltæknilegs eðlis hafi verið unnin á Íslandi á seinustu áratugum 20. aldar má segja að skipulegt máltæknistarf hafi hafist með skipun nefndar til að “kanna stöðu og möguleika tungutækni á Íslandi” fyrir réttum 20 árum, haustið 1998. Skýrsla þeirrar nefndar lagði grunn að tungutækniáætlun menntamálaráðuneytisins 2000-2004, en margar afurðir íslenskrar máltækni má rekja til hennar, beint eða óbeint. Í þessu erindi verður farið yfir helstu áfanga í íslenskri máltækni þessi 20 ár og reynt að leggja mat á hvernig til hefur tekist.

Almannarómur og máltækniáætlun 2018-2022.

Fyrirlesari: Stefanía Halldórsdóttir, formaður stjórnar Almannaróms.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur samið við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar fyrir íslensku, að undangengnu útboði. Miðstöðin mun hafa yfirumsjón með framkvæmd og samhæfingu máltækniverkefnisins, verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018 – 2022, sem stýrihópur um máltækni fyrir íslensku lagði fram á síðasta ári og er nú fullfjármögnuð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem öll brenna fyrir því brýna verkefni að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í síbreytilegum tækniheimi. Í þessu erindi verður Almannarómur kynntur og fjallað um máltækniáætlunina og einstök verkefni innan hennar.

Talgreining.

Fyrirlesari: Jón Guðnason, dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Talgreining er tækni sem breytir talmáli í ritmál. Áreiðanleg og nákvæm útfærsla hefur verið eitt helsta markmið máltækninnar í áratugi en á undanförnum árum hefur árangurinn orðið það góður að hana má nýta í margvíslegum tilgangi. Margar fræðigreinar hafa komið að þessari þróun og er hún gott dæmi um hve mikilvægt það er að vinna þverfaglega að þýðingamiklum verkefnum. Í þessum fyrirlestri verður farið yfir helstu fræðigreinar sem standa að baki talgreiningu með áherslu á aðkomu vélræns náms og tauganeta. Þá verður talgreining á ræðum Alþingismanna lýst og vefgátt fyrir opinn talgreini sýnd.

Málgreining og vélþýðingar.

Fyrirlesari: Vilhjálmur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Miðeindar ehf.

Margvíslegar áskoranir felast í því að kenna tölvum að “skilja” texta, þannig að þær geti til dæmis unnið upp úr honum upplýsingar og staðreyndir, eða þýtt hann yfir á önnur tungumál. Tvær ólíkar aðferðir í þessu skyni eru annars vegar trjágreining (þáttun) málsgreina samkvæmt málfræðireglum, sem eru býsna flóknar fyrir íslensku, og hins vegar að nota nýja gervigreindartækni, þ.e. djúp tauganet, til að varpa málsgreinum yfir í setningatré og/eða yfir í annað tungumál. Í þessu erindi verður fjallað um verkefni á þessu sviði sem unnið er að á vegum fyrirtækisins Miðeindar ehf., og dæmi sýnd um málgreiningu íslensks texta og þýðingu milli tungumála.