Lög félagsins

eftir framhaldsaðalfund 26. júní 2019.

  1. gr.

Félagið heitir Vísindafélag Íslands (Societas scientiarum Islandica).

  1. gr.

Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

  1. gr.

Hlutverk félagsins er að styðja vísindalega starfsemi, einkum með því að skapa vettvang fyrir umræðu um vísindastarf á Íslandi, efla útbreiðslu þekkingar á vísindum, stuðla að samvinnu meðal aðila sem sinna vísindum og vinna að bættu starfsumhverfi vísinda hér á landi.

  1. gr.

Upplýsingum til félagsmanna skal miðlað í gegnum heimasíðu félagsins. Þar  skal boða til funda og tilkynna um viðburði á vegum félagsins.

  1. gr.

Félagsmenn eru: reglulegir félagsmenn og heiðursfélagar. Reglulegir félagsmenn geta þeir orðið sem sýnt hafa fram á sjálfstæðan og viðurkenndan vísindaferil í samræmi við kröfur sem gerðar eru í 6. gr.

Árgjald greiða reglulegir félagsmenn, og er upphæð þess ákveðin á aðalfundi. Reglulegir félagsmenn greiða árgjald í síðasta skipti á því almanaksári sem þeir verða sjötugir.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

  1. gr.

Umsókn um aðild að félaginu skal berast forseta félagsins ásamt feril- og ritaskrá á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Stjórn félagsins metur vísindalega hæfni umsækjenda á grundvelli menntunar og vísindastarfa. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi sýnt fram á sjálfstæðar rannsóknir og birtingu þeirra á viðurkenndum og ritrýndum vettvangi. Einfaldur meirihluti stjórnarmanna þarf að vera samþykkur inntöku nýrra félagsmanna.

  1. gr.

Heiðursfélaga má aðeins kjósa eftir einróma tillögu stjórnar félagsins. Kosning heiðursfélaga getur farið fram hvort heldur er á aðalfundi eða almennum félagsfundi, en jafnan skal tillögu um slíka kosningu getið í skriflegu fundarboði.

  1. gr.

Stjórn félagsins skipa sjö félagsmenn, forseti, ritari, féhirðir og fjórir meðstjórnendur. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára hver um sig og þannig hagað, ef kostur er á, að eigi sé skipt um fleiri en fjóra stjórnarmenn í senn. Nú hlýtur enginn þeirra sem í kjöri eru meirihluta greiddra atkvæða, og skal þá fara fram bundin kosning um þá er fengið hafa hæstar atkvæðatölur, og ræður þá afl atkvæða. Hlutkesti ræður ef tveir eða fleiri fá jafnmörg atkvæði.

Tillögur um stjórnarmenn skulu sendar stjórn félagsins eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund. Kjósa skal forseta sérstaklega en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum og kýs ritara og féhirði.

Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn til að skoða og árita reikninga félagsins. Stjórnar- og nefndarstörf í félaginu eru ólaunuð, nema sérstaklega standi á og aðalfundur heimili greiðslu.

  1. gr.

Stjórnin annast allar framkvæmdir félagsins, þær sem eigi eru sérstaklega lagðar undir félagsfund eða einstaka aðila.

  1. gr.

Á félagsfundum ræður afl atkvæða, sbr. þó 12. gr. Á félagsfundum má ekki gera ályktun um neitt félagsmálefni sem eigi hefur verið greint í fundarboði, nema því aðeins að á fundi sé meira en helmingur félagsmanna.

  1. gr.

Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í maímánuði ár hvert og skal boða til hans með nægilegum fyrirvara. Á aðalfundi skulu þessi mál tekin til meðferðar:

  1. Stjórnin skýrir frá störfum félagsins síðastliðið starfsár.
  2. Áritaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
  3. Ákvörðun árgjalds, sbr. 5. gr.
  4. Tillögur um lagabreytingar, ef fram koma, sbr. 12. gr.
  5. Kosning stjórnarmanna, sbr. 8. gr.
  6. Kosning skoðunarmanna reikninga, sbr. 8. gr.
  7. Önnur mál.

 

  1. gr.

Lögum félagsins má eigi breyta nema á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist  stjórn félagsins eigi síðar en í lok mars. Fram komnar tillögur um lagabreytingar skulu kynntar félagsmönnum í fundarboði til aðalfundar. Lagabreytingar má því aðeins bera upp til samþykktar á aðalfundi, að þar sé helmingur félagsmanna hið fæsta, og teljast þær eigi samþykktar nema 2/3 fundarmanna greiði atkvæði með þeim.

Nái lagabreytingar eigi fram að ganga á aðalfundi sökum ónógrar fundarsóknar skal haldinn framhaldsaðalfundur innan sex vikna, og er þá heimilt að bera upp til samþykktar tillögur til lagabreytinga án tillits til fundarsóknar og teljast þær eigi samþykktar, nema 2/3 fundarmanna greiði atkvæði með þeim.