Fyrsti fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Vísindafélagsins um Nóbelsverðlaunin 2020 fór fram 28. október á Zoom. Sigurður Ólafsson sérfræðingur í meltingar- og lifrarlækningum fjallaði um Nóbelsverðlaunin í læknisfræði.
Hér má horfa á fyrirlesturinn. https://youtu.be/wGHu6ve7exA
Sænska Nóbelsnefndin tilkynnti þann 5. október um verðlaunahafa í lífeðlis- eða læknisfræði árið 2020. Að þessu sinni fengu þrír vísindamenn verðlaunin, Bandaríkjamennirnir Harvey J. Alter og Charles Rice og Bretinn Michael Houghton, fyrir að uppgötva lifrarbólguveiru C. Uppgötvunin leiddi til þess að unnt að þróa mótefnapróf til greiningar og öflug lyf gegn veirunni. Á heimsvísu eruum 70 milljónir manna smitaðir af lifrarbólgu C veirunni sem veldur langvinnri lifrarbólgu, skorpulifur og lifrarkrabbameini. Talið er að um 400.000 einstaklingar deyji árlega úr þessum sjúkdómi. Framfarir í greiningu og meðferð voru svo forsenda þess að árið 2016 setti Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin þjóðum heims það takmark að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá fyrir árið 2030. Veiting þessara verðlauna er sérstaklega ánægjuleg fyrir okkur hér á Íslandi. Í ársbyrjun 2016 var hrundið af stað meðferðarátaki gegn lifrarbólgu C hér á landi. Á fyrstu þremur árum átaksins tókst að meðhöndla meira en 95% allra greindra einstaklinga og stórlækka algengi lifrarbólgu C í helsta áhættuhópnum sem er fólk sem sprautar sig með vímuefnum í æð. Árangurinn hér á landi og sú nálgun sem við höfum beitt hefur vakið athygli erlendis og skipað Íslandi í sveit forystuþjóða í baráttunni við þennan skæða sjúkdóm.
Um Sigurð Ólafsson
Sigurður er sérfræðingur í meltingar- og lifrarlækningum og umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala. Hann er jafnframt klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands.
Hann lauk námi í almennum lyflækningum við Cleveland Metropolitan General Hospital og Case Western Reserve háskólann árið 1991 og í meltingarlækningum og lifrarlækningum við Northwestern Memorial sjúkrahúsið og Northwestern University School of Medicine í Chicago árið 1994. Sigurður starfaði við Sjúkrahúsið á Akranesi 1994-2003 og frá árinu 1998 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og síðar Landspítala. Hann hefur undanfarin ár leitt meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á Íslandi.