Vilmundur hlýtur heiðursverðlaun úr Ásusjóði

Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright í ár fyrir brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og erfðum þeirra. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Vilmundi verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu föstudaginn 5. desember. Verðlaunin eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Vilmundur Guðnason hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar um 20 ára skeið og hann er einnig prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands með áherslu á erfðir hjarta- og æðasjúkdóma. Þá hefur hann verið gestavísindamaður við Centre for Cardiovascular Genetics hjá Royal Free og University College í London og hjá Institute of Public Health við Háskólann í Cambridge. 

Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til þess að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi sjúkdómum, eins og hjarta- og æðasjúkdómum. Hann stýrir Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem byggist á hinni 50 ára löngu Reykjavíkurrannsókn og svokallaðri REFINE Reykjavík rannsókn hjá yngri aldurshópi. Gögn úr þessum rannsóknum hafa m.a. verið nýtt í alþjóðlegu samstarfi til þess að varpa skýrara ljósi á áhættþætti hjarta- og æðasjúkdóma og samstarfi við innlenda og erlenda aðila hefur hann birt fjölmargar vísindagreinar í þekktustu vísindatímaritum heims, m.a. um áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. 

Nýjustu rannsóknir Vilmundar tengjast ýmsum þáttum öldrunar, allt frá beinþynningu til heyrnartaps, lungnasjúkdóma og bandvefsmyndunar í lungum, háþrýstings og æðakölkunar. 

Hafa lagt grunn að fovörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum

Niðurstöður úr rannsóknum Hjartaverndar hafa enn fremur lagt grunninn að þekkingu á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og verið undirstaða markvissra forvarna gegn þessum sjúkdómum. Út frá rannsóknunum hefur enn fremur verið þróaður áhættureiknir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma sem er aðgengilegur á netinu. 

Vilmundur og samstarfsfólk hjá Hjartavernd hefur hlotið fjölmarga styrki innan lands og utan til rannsókna, þar á meðal frá National Institute of Health og National Institute on Ageing í Bandaríkjunum, Rannsóknarsjóði Íslands og Evrópusambandinu. Hjartavernd hefur enn fremur átt í góðu samstarfi við háskóla, stofnanir og fyrirtæki hér á landi auk tuga rannsóknahópa í háskólum og stofnunum í Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og Asíu. 

Auk þessa hefur Vilmundur leiðbeint fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi bæði hér á landi og erlendis. Hann er höfundur yfir 600 ritrýndra fræðigreina og er mjög oft vitnað til þeirra, eða hátt í 94.000 sinnum samkvæmt google.scholar. Niðurstöður úr rannsóknum þeim sem Vilmundur hefur unnið að hafa vakið mikla athygli í vísindaheiminum. 

Vilmundur Guðnason er fæddur hinn 15. janúar 1954. Hann lauk BS-prófi og kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1985 og doktorsprófi í erfðafræði frá University College í London árið 1995. Eiginkona Vilmundar er Guðrún Nielsen myndhöggvari og eiga þau þrjá syni. 

Þetta eru ekki fyrstu verðlaun Vilmundar því hann hlaut árið 2012 Nikkilä-minningarverðlaun Scandinavian Society for Atherosclerosis