Vísindafélag Íslands ályktar um framtíð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Vísindafélags Íslands sendi frá sér umsögn vegna draga að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.

Vísindafélag Íslands er óháður félagskapur vísindamanna á öllum sviðum vísinda. Hlutverk þess er meðal annars að styðja vísindalega starfsemi, stuðla að samvinnu meðal aðila sem sinna vísindum og vinna að bættu starfsumhverfi vísinda hér á landi. 

Tilefni þessa bréfs eru drög að lagafrumvarpi um opingeran stuðning við nýsköpun á Íslandi sem felur í sér viðamiklar breytingar á þeirri starfsemi sem nú fellur undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Vísindafélag Íslands hefur þungar áhyggjur af því að þær aðgerðir sem kveðið er á í frumvarpinu séu ekki nógu vel ígrundaðar og feli í sér meiri skaða en ávinning fyrir nýsköpun og tækniþróun á Íslandi.   

Í frumvarpsdrögunum er kveðið á um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands skuli lögð niður og að hluta til verði í hennar stað stofnað óhagnaðardrifið einkahlutafélag, Nýsköpunargarðar, alfarið í eigu ríkisins. Ríkið mun veita Nýsköpunargörðum rekstrarfé og munu eignir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í formi tækja og búnaðar renna til hins nýja ríkisrekna einkahlutafélags.  

Nýsköpunargarðar munu taka við hluta af starfsemi og hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar en önnur verkefni verða ýmist lögð niður eða þeim dreift á aðra aðila. Þannig munu efnagreiningar verða í höndum MATÍS og gert er ráð fyrir að byggingarrannsóknir verði framkvæmdar á óskilgreindum stöðum í kerfinu,  fjármagnaðar af nýjum samkeppnissjóði í byggingariðnaði fyrir það fé sem áður var veitt beint til NMÍ.  

Vísindafélagið hefur áhyggjur af því að þessar aðgerðir lýsi miklum vanskilningi á eðli þekkingarstarfs. Við teljum mikla hættu á því að þessar aðgerðir muni vinna mikinn skaða á rannsóknarinnviðum á Íslandi. Þessir innviðir felast bæði í þeim tækjabúnaði sem til staðar er, sem og þeim samlegðaráhrifum sem felast í að reka þá á einum stað auk þeirrar þekkingar sem um rannsóknirnar skapast á þeim stað sem þær eru framkvæmdar. Með því að tvístra starfi NMÍ á svo marga staði er mikil hætta á að sú kunnátta og hæfni sem felst í mannauði stofnunarinnar glutrist niður og það taki langan tíma að byggja hana upp aftur. Vísinda- og rannsóknastarf er mjög háð því að samfella haldist í starfinu og þeim innviðum sem að því snýr og því þarf að stíga varlega til jarðar þegar starfsemi er lögð niður eða færð til innan kerfisins.  

Ekki er vel rökstutt í frumvarpinu að samkeppnissjóður fyrir rannsóknir byggingariðnaði muni sannarlega ná að gegna því hlutverki sem NMÍ gegnir nú. Ekki er sjálfgefið að það sé bolmagn og þekking til staðar annars staðar í kerfinu til þess að sinna því þjónustuhlutverki við byggingariðnaðinn sem NMÍ hefur gert til þessa. Hætta er á að ef fjármagninu er dreift á marga staði í smærri skömmtun verði meiri sóun í kerfinu en þegar þessum rannsóknum sé sinnt af stofnun með skilgreint hlutverk þar að lútandi sem hefur yfir nauðsynlegri þekkingu og tækjabúnaði að búa. Mun eðlilegra hefði verið að stóla áfram á þá kjarnastarfsemi sem felst í byggingarannsóknum NMÍ og bæta við samkeppnissjóði í geiranum til þess að auka sveigjanleika kerfisins. Þannig væri unnt að hámarka árangur með því að tryggja nauðsynlega kjarnastarfsemi en opna fyrir nýjar hugmyndir og þekkingarmyndun sem stofnunin sinnir síður.  

Það er heldur ekki augljóst að hlutverk NMÍ í rannsóknum sem snúa að efnagreiningum eigi betur heima í MATÍS en í NMÍ, og ekki vel rökstutt að sú stofnun hafi yfir nauðsynlegri reynslu og þekkingu að búa til þess að taka við því hlutverki.  

Stjórn Vísindafélags Íslands fagnar því að stjórnvöld hafi hug á því að hlúa að nýsköpun í landinu. Það er þó okkar mat að endurskipulagning stofnana eins og NMÍ þurfi lengri aðdraganda og betri ígrundun til þess að tryggja að ávinningurinn af aðgerðunum verði sannarlega meiri en mögulegur skaði af þeim.