Stjórn Vísindafélags Íslands hefur sent forsætisráðherra auk annarra ráðherra sem sitja í Vísinda- og tækniráði, bréf í tilefni af stefnumörkun stjórnvalda sem ráðið vinnur að um þessar mundir. Þar er áhyggjum lýst yfir vegna stöðu grunnrannsókna á Íslandi. Grunnrannsóknir eru þær rannsóknir sem stundaðar eru með þekkingaröflun að meginmarkmiði án þess að hagnýting sé beint takmark þeirra. Grunnrannsóknir eru jafnframt eina aðferðin til að skapa alveg nýja þekkingu og eru þær því grunnforsenda allra framfara. Mörg dæmi eru um það hvernig grunnrannsóknir nýtast á óvæntan hátt og er CarbFix verkefnið, þar sem koltvíoxíð úr andrúmsloftinu er bundið í grjót, gott dæmi um slíkt.
Í bréfinu segir meðal annars að áhersla stjórnvalda á nýsköpun sé afar jákvæð en mikilvægt sé að hafa í huga að grunnrannsóknir eru mikilvægur grundvöllur nýsköpunar, bæði þegar kemur að þekkingaröflun og þjálfun vísindamanna í rannsóknarvinnubrögðum. Bent er á að einungis 14% þeirra verkefna sem sóttu um styrki til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs fengu styrk í ár, sem þýðir að 86% verkefna hlutu ekki brautargengi. Í þeim hópi sem ekki hlutu brautargengi segir sig sjálft að leynast sprotar að uppgötvunum sem bæði myndu gagnast nýsköpunargeiranum en ekki síður samfélaginu öllu auk þess að búa mögulega yfir svörum við viðfangsefnum sem samfélagið stendur frammi fyrir í framtíðinni og engin leið er að spá fyrir um í dag. Það hefur því auga leið að fjármögnun til grunnrannsókna þarf að auka og tryggja.
Í bréfinu er ennfremur bent á að samkvæmt svokölluðum Barcelona-viðmiðum aðildarríkja Evrópusambandisins sé markmiðið að fjárfesting hins opinbera í rannsóknum og þróun eigi að vera 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) en að 2% eigi að koma frá einkaaðilum. Það er raunhæft að Ísland, sem meðal annars er þátttakandi í rammaáætlunum Evrópusambandsins um menntun, rannsóknir og tækniþróun, setji sér sama markmið, en fjárfesting íslenska ríkisins í rannsóknum og þróun var 0.72% af VLF árið 2018. Vísindafélagið leggur því höfuðáherslu á að ríkið auki fjárfestingu sína í rannsóknum upp í 1% af VLF og að það framlag fari alfarið í grunnrannsóknir.
Vísindafélagið leggur í bréfinu til eftirfarandi:
Fjármagn Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs verði tvöfaldað í þremur skrefum á árunum 2021 – 2024, þannig að í sjóðinn verði bætt sem svarar um 800 milljónum á ári á verðlagi dagsins í dag þar til heildarfjármögnun sjóðsins nái 5 milljörðum árlega.
Að tryggt verði að fjármögnun sjóðsins haldi í við efnahagsþróun. Lagt er til að fjármögnun sjóðsins verði bundin við verga landsframleiðslu á svipaðan hátt og framlög Íslands til rammaáætlunar Evrópusambandsins
Ríkið fari í sértækar aðgerðir og ívilnanir til þess að hvetja til stofnunar einkasjóða og fjárfestingar einkaaðila í grunnrannsóknum að fyrirmynd erlendra sjóða eins og til dæmis Carlsberg-sjóðsins í Danmörku.
Fylgja þarf fjárfestingu í grunnrannsóknum eftir þar til Ísland stendur jafnfætis nágrannalöndunum í vísindafjármögnun.
Vísindafélag Íslands styður þann metnað sem íslensk stjórnvöld hafa sett í fyrri stefnur og hvetur til þess að Ísland verði áfram leiðandi í tækninýjungum og haldi samkeppnisstöðu sinni á alþjóðavísu sem mun skila sér í áframhaldandi velsæld og bættum hag samfélagsins alls.
Í hér má lesa bréfið í heild sinni.
https://visindafelag.is/wp-content/uploads/Visndastefna2020-VisindafelagIslands.pdf