Ári lotukerfisins fagnað 4. september

Árið 2019 hefur verið valið ár lotukerfisins af Menningarmálastofnun sameinuðu þjóðanna, UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) og af því tilefni býður Vísindafélag Íslands til hádegisfyrirlestrar miðvikudaginn 4. september kl. 12 í Þjóðminjasafni Íslands.

Nú eru liðin 150 ár frá því að rússneski efnafræðingurinn Dmitri Ivanovich Mendeleev, birti fyrstur manna töflu yfir um það bil 60 frumefni, sem þá voru þekkt, á lotubundinn hátt háð efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum þeirra og nefndi hana Lotukerfið. Frumefnin eru undirstaða þess fjölbreytilega efnisheims sem umleikur okkur og við erum hluti af. Í erindinu verður stiklað á stóru um aðdragandann að tilurð frumeinda / atóma lotukerfisins í alheimi og nútíma sýn manna á eiginleika og innbyrðis skyldleika þeirra. Þá verður  reynt að varpa ljósi á hvernig hinar ýmsu frumeindir / atóm móta fjölbreytileika lífs og „lífleysu“ á jörðinni.

Fyrirlesari er Dr. Ágúst Kvaran, prófessor á sviði eðlisefnafræði við raunvísindadeild verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.