Fræðslufundur um nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum 2018, Olgu Tokarczuk

Vísindafélag Íslands stendur fyrir fræðslufundi um nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum fyrir árið 2018, Olgu Tokarczuk. Fundurinn fer fram í Þjóðminjasafninu miðvikudag 30. Október milli 12 og 13.

Pólski rithöfundurinn Olga Tokarczuk hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir árið 2018 en verðlaunin voru ekki afhent í fyrra svo henni féllu þau í skaut í ár. Hún fæddist árið 1962 og telst til merkustu rithöfunda Evrópu. Fyrsta bók hennar kom út árið 1989, ljóðabókin Borgir í spegli en hún vakti fyrst athygli utan Póllands fyrir skáldsöguna Ur og aðrir tímar sem kom út árið 1996. Hún hlaut alþjóðlegu Man Booker verðlaunin 2018 fyrir skáldsöguna Flights.

Skrifum Olgu hefur verið líkt við bútasaumsteppi, þar sem hún blandar saman frásögnum af hversdagslífi, skissum og ritgerðum þar sem söguleg fortíð, samtíð og framtíð er látið speglast í ólíkum tímum sem og stöðugri endurtekningu þeirra gleði og sorga sem mannfólkið upplifir.

Ewa Marcinek, pólskur rithöfundur sem er búsett hérlendis mun segja frá Olgu Tokarczuk og verkum hennar. Fyrirlesturinn sem verður á ensku mun bera titilinn “Olga Tokarczuk. The maps of reality.”  

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir

Vísindafélag Íslands hefur frá árinu 2013 boðið almenningi upp á fræðsluerindi um nóbelsverðlaunahafa hvers árs og rannsóknir þeirra. Erindin eru ætluð almenningi til að kynnast því sem ber hæst í vísindum hverju sinni og eru öllum opin auk þess sem þau verða aðgengileg á heimasíðu félagsins. Vísindafélagið starfar óháð stofnunum og þvert á fræðigreinar og er því frjór vettvangur vísindaumræðu í íslensku samfélagi.