Vísindaskáldskapur sem rætist?

Málþing með yfirskriftinni Vísindaskáldskapur fortíðar – samfélagslegar áskoranir framtíðar verður haldið á vegum Vísindafélagsins í Þjóðminjasafninu föstudaginn 11. Október kl 12-15.

Vísindaskáldverk, bækur og kvikmyndir, segja til um hvernig framtíð sagnalistamenn sáu fyrir sér í ljósi þeirrar vísindaþekkingar sem þeirra samtími bjó yfir. Mörg þessara verka hafa reynst furðu sannspá og má þar nefna 1984 eftir George Orwell sem árið 1948 spáði fyrir um eftirlitssamfélagið og Brave New World eftir Aldous Huxley þar sem siðferðisspurningar varðandi erfðatækni voru bornar fram, en í báðum tilfellum er fjallað um mögulegar vísindaframfarir sem eru orðnar að veruleika í dag, veruleika sem setur fram ýmsar samfélagslegar og siðferðislegar áskoranir. Þá eru ótaldar fjölmargar heimsendaskáldsögur þar sem mannkynið hefur tortímt möguleikum sínum til farsællar búsetu á jörðinni. 

Vísindafélag Íslands efnir til málþings um vísindaskáldskap og vísindaþekkingu þar sem raunvísindamenn og hugvísindamenn ræða vísindaskáldskap og þær samfélagsáskoranir sem vísindaskáldskapurinn sá fyrir og eru nú raunveruleiki sem þarf að bregðast við.

Frummælendur verða:

Björn Þór Vilhjálmsson lektor í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við Háskóla Íslands:

Vísindaskáldskapur í fortíð, nútíð og framtíð

Vísindaskáldskapur hefur ávallt leitast við að nýta möguleika bókmenntaformsins til að spyrjast fyrir um þá framtíð sem tækni og vísindi gætu skapað jarðarbúum. Þeirri framtíðarsýn hefur þó ekki síður verið ætlað að glíma við samtímann enda býður sögusvið vísindaskáldskapar upp á opið rými til að fjalla um pólitísk, samfélagsleg og siðferðileg spursmál. Í erindinu verður fjallað um rætur bókmenntagreinarinnar á nítjándu öld og grein gerð fyrir þróun hennar á þeirri tuttugustu, auk þess sem vikið verður að samtímaáherslum. Sjónum verður ekki síst beint að viðhorfum til tækniþróunar og „spámennskuhlutverki“ greinarinnar, og þess hvernig vísindaskáldskaparhöfundar hafa jafnan tekist á við áskoranir síns samtíma. Þá verður einnig vikið að þróun vísindaskáldskaparmyndarinnar, en allt frá því að Georges Méliès gerði Le voyage dans la Lune (Ferðin til tunglsins) árið 1902 hefur vísindaskáldskaparmyndin verið samofin sögu kvikmyndalistarinnar. Með þeim furðuheimi sem Méliès bar á borð fyrir áhorfendur má segja að fram hafi komið kvikmyndagrein sem allar götur síðan hefur verið í framvarðasveit í tæknilegri framþróun miðilsins.

Erna Magnúsdóttir, dósent í líffræði við Háskóla Íslands

Er heimur GATTACA handan við hornið?

Árið 1997 kom bíómyndin GATTACA út og sló í gegn. Myndin fjallar um framtíðarsamfélag þar sem erfðamengi einstaklingsins segir allt um stöðu hans í samfélaginu, tækifæri og örlög. Myndin lýsir ákveðnum ótta við erfðatæknina sem spratt fram um miðja 20. öld og þróaðist hratt samhliða glasafrjóvgun á seinnihluta aldarinnar. Á þeim 22 árum sem liðin eru síðan GATTACA var frumsýnd hefur dregið til enn frekari tíðinda í erfðavísindum, stofnfrumurannsóknum og hjálparaðferðum við frjóvgun. Í fyrirlestrinum verða hugmyndir kvikmynarinnar um lagskipt þjóðfélag skoðaður með hliðsjón af þeim möguleikum sem nú virðast handan við hornið í erfða- og líftækni.

Sigurður Ingi Erlingsson professor í eðlisfræði við Háskólann í Reykjavík:

Hvernig virkar Heisenberg-leiðréttarinn?

Skammtafræðin hefur það orð á sér að vera illskiljanleg og jafnvel dularfull. Innan skammtafræðinnar rúmast mismunandi túlkanir sem hafa verið höfundum vísindaskáldsagna innblástur í gegnum tíðina. Í fyrirlestrinum verða helstu hugtök skammtafræðinnar útskýrð á aðgengilegan hátt. Tekin verða dæmi um notkun hugmynda skammtafræðinnar í vísindaskáldskap, þar sem misvel hefur tekist til. Að lokum verður aðeins fjallað um hvað framtíðin gæti borið í skauti sér varðandi hagnýtingu skammtafræðinnar, þar sem mörk vísinda og vísindaskáldskapar verða óljós.

Á eftir verða pallborðsumræður.

Fundarstjóri er Brynhildur Björnsdóttir bókmenntafræðingur.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.