Grunnrannsóknir á Íslandi – skýrsla Vísindafélagsins, ReykjavíkurAkademíunnar og FEDON

Út er komin skýrslan Grunnrannsóknir á Íslandi sem unnin af Vísindafélagi Íslands, ReykjavíkurAkademíunni og FEDON, félagi doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands.  

Þar er farið yfir mikilvægi grunnrannsókna á Íslandi sem er meira en flestir gera sér grein fyrir, hagræn áhrif könnuð og staða málaflokksins kynnt eins og hún horfir við í dag. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi mikilvæga stoð vísindarannsókna og nýsköpunar á Íslandi er skoðuð með þessum hætti. Vonir standa til þess skýrslan upplýsi og veki áhuga á grunnrannsóknum og stuðli að viðurkenningu á þýðingu þeirra fyrir vísindasamfélagið, nýsköpun og þar með samfélagið allt. Stefnt  er  að því að slík skýrsla muni koma út annað hvert ár til að fylgjast með málaflokknum og kynna stöðu hans.  

Grunnrannsóknir eru rannsóknir sem eru framkvæmdar fyrst og fremst til þess að afla nýrrar þekkingar, án ákveðinnar notkunar eða hagnýtingar og eina leiðin sem við höfum til að afla alveg nýrrar þekkingar. Grunnrannsóknir eru helsta undirstaða framþróunar í öllum vísindagreinum og  gegna mjög margþættu menningarlegu, samfélagslegu og efnahagslegu hlutverki og eru hluti af þeim innviðum samfélagsins sem nýsköpun, hagnýting og þróun byggir á. Mikilvægi grunnrannsókna fyrir velsæld samfélagsins er því mjög víðtækt, þær eru undirstaða auðlegðar og framfara. Þetta endurspeglast meðal annars í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lögð er áhersla á menntun og vísindi. Vísindafólk á Íslandi þarf að hafa góða möguleika á að stunda grunnrannsóknir og fjárfesting í þeim getur haft víðtæk áhrif. Efling grunnrannsókna er líkleg til að hafa stórfelld jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar og hún er grundvallarforsenda góðs starfsumhverfis fyrir vísindafólk og frjósams jarðvegar fyrir nýsköpun.  

Ýmsu hefur verið ábótavant í fjármögnun grunnrannsókna undanfarna áratugi þrátt fyrir ítrekuð fyrirheit stjórnvalda, bæði þegar litið er til starfa reynslumikils vísindafólks og uppbyggingar fyrir ungt vísindafólk, svo sem gegnum doktorsnám. Síðastliðið ár hafa vonir vaknað um að þetta gæti færst til betri vegar, til dæmis vegna aukinna framlaga til rannsókna og þróunar á grundvelli nýsköpunarstefnu stjórnvalda en þó vantar sterkari skuldbindingu af hendi stjórnvalda svo grunnrannsóknir megi eflast. Mikilvægt er að þessu sé fylgt eftir á næstu árum þannig að grunnrannsóknir á Íslandi hljóti nauðsynlegan stuðning . 

Skýrsluna má nálgast hér.