Aðalfundur og málþing 29. maí 2019-upptaka

Aðalfundur Vísindafélags Íslendinga var haldinn 29. maí síðastliðinn. Þar voru á dagskrá hefðbundin aðalfundarstörf auk tillögu stjórnar að breytingum á lögum félagsins en þar bar hæst tillögu að breytingu á nafni félagsins, úr Vísindafélag Íslendinga í Vísindafélag Íslands.
Ekki reyndist nægileg mæting félagsmanna á fundinn til að lagabreytingar næðu fram að ganga og því verða lagabreytingar lagðar fyrir framhaldsaðalfund sem haldinn verður í lok júní.

Posted by Vísindafélag Íslendinga on Miðvikudagur, 29. maí 2019

Að fundinum loknum var blásið til málþingsins Nýsköpunarhæfni til framtíðar um þær áskoranir sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir með tilliti til framtíðar, og sérstaklega þegar kemur að aukinni tæknivæðingu samfélagsins. Frummælendur voru Kristjana Stella Blöndal, doktor í uppeldis- og menntavísindum sem fjallaði um stöðu starfsnáms hér á landi á framhaldsskólastigi með tilliti til þess hve fá ungmenni velja starfsnám og kynna rannsókn um afstöðu starfsnámsnemenda til náms og Haukur Arason, dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, sem ræddi þær áskoranir sem skólakerfið þarf að takast á við til að undirbúa íslenskt samfélag undir fjórðu iðnbyltinguna í ljósi undirliggjandi menntapólitískra átaka.

Að málþinginu loknu voru pallborðsumræður þar sem tóku þátt Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar og Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu – Tæknitorgs auk frummælenda. Umræðum stýrði Kristján Leósson, framkvæmdastjóri efnis-, líf- og orkutæknideildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands  sem jafnframt var fundarstjóri. upptaka frá málþinginu er hér með.

Þess má geta Kristján lét af stjórnarsetu í Vísindafélaginu á fundinum en hann hefur setið í stjórn frá árinu 2014. Sæti hans í stjórn tekur Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni við Háskólann á Akureyri.

Félagsfundur vegna lagabreytinga í Læknagarði 24. maí kl. 16

Kæru félagar í Vísindafélaginu,

félagsfundur verður haldinn í stofu 201 í Læknagarði föstudaginn 24. maí klukkan 16. Á dagskrá eru lagabreytingartillögur stjórnar en tímabært er að endurskoða lögin þar sem það var síðast gert 2009. Lagabreytingarnar má kynna sér hér.

Fundurinn er undirbúningsfundur fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður miðvikudaginn 29. mai kl. 11 í Þjóðminjasafninu. Þar verður auk venjulegra aðalfundarstarfa haldið málþing um vísindakennslu sem nánar verður auglýst síðar.

Með kveðju,
stjórn Vísindafélags Íslendinga

Aðalfundur 2018

Aðalfundur Vísindafélags Íslendinga verður haldinn fimmtudaginn 31. maí 2018 kl. 11:00 í sal Þjóðminjasafns Íslands.

Dagskrá:
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla forseta
Ársreikningar félagsins
Ákvörðun um félagsgjöld
Kosning stjórnarmanna
Kosning skoðunarmanna
Önnur mál

Að loknum aðalfundi verður boðið upp á kaffi og kl. 12:00 flytur síðan dr. Sigríður Sigurjónsdóttir erindi um fyrstu niðurstöður þeirra Eiríks Rögnvaldssonar í öndvegisverkefni um stafrænt sambýli íslensku og ensku en þau eru bæði prófessorar í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.