Umsögn Vísindafélags Íslands um vegna frumvarps til fjáraukalaga fyrir 2020 (Aðgerðapakka 2).

Eftirfarandi bréf var sent nefndasviði Alþingis í gær, 27. apríl 2020. 

Efni: Umsögn Vísindafélags Íslands vegna frumvarps til fjáraukalaga fyrir 2020 (Aðgerðapakka 2). 724. mál 150. löggjafarþings 2019–2020. 

Vísindafélag Íslands er óháður félagskapur vísindamanna á öllum sviðum vísinda. Hlutverk þess er meðal annars að styðja vísindalega starfsemi, stuðla að samvinnu meðal aðila sem sinna vísindum og vinna að bættu starfsumhverfi vísinda hér á landi. 

Tilefni þessa bréfs eru frumvarp ríkisstjórnar Íslands til fjáraukalaga fyrir árið 2020 (þingskjal 1253 – 724. mál) og frumvarp um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (þingskj. 1255 – 726. mál) sem heyra undir svokallaðan Aðgerðapakka 2 til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins. Við erum jafnframt fús til að funda með viðeigandi embættis- eða nefndarmönnum til að ræða þessar ráðleggingar og þar með leggja frekar af mörkum til þeirrar vinnu sem nú fer fram við að bregðast við áhrifum faraldursins.  

Í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19, sem tilkynnt var um í mars, er að finna 1400 millj. kr. aukningu á fé til Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, sem skiptist þannig að 700 milljónir fara til Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs og 700 til Tækniþróunarsjóðs.  

Í Aðgerðapakka 2 er í frumvarpi til fjáraukalaga kveðið á um 2.300 m.kr. aukningu á fé til að efla nýsköpun og þróun. Þær skiptast í 500 m.kr. í Matvælasjóð sem mun stuðla að nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu, 1.150 m.kr. til sprota- og nýsköpunarsjóðsins Kríu, 100 m.kr. í kynningarátak um að verja störf og auka verðmætasköpun á Íslandi, 300 m.kr. til Nýsköpunarsjóðs námsmanna og 250 m.kr. til launasjóða listamanna. Meðal annarra atriða sem tengjast rannsóknum og menntun má nefna 2.200 m.kr. í átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og 500 m.kr. í sumarnám á háskólastigi. 

Þær aðgerðir sem kveðið er á um þarna eru mikilvægar. Hins vegar er það stjórn Vísindafélagsins mikið áhyggjuefni að algerlega vantar stuðning við grunnrannsóknir í aðgerðapakka 2. Til þess að takmarka ekki getu okkar til að takast á við núverandi áskoranir þarf að vanda vel til forgangsröðunar í vísindum og tækni þannig að veikir hlekkir í kerfinu takmarki ekki getu okkar til að takast á við þessar áskoranir. Grunnrannsóknir eru ekki einungis einn hlekkur íslenskrar nýsköpunar, heldur eru undirstaða hennar og því er mikilvægt að hlúa að þeim til þess að hámarka ávinning íslensks þekkingarsamfélags. Þá hefur það sýnt sig á undanförnum vikum og mánuðum hve mikilvægt er að vandað sé til verka við alla upplýsingagjöf og að stutt sé við upplýsta umræðu og ákvarðanatöku. Forsendur fyrir því að það sé mögulegt hvíla á öflugu vísindastarfi í landinu, sem er meðal annars nauðsynlegur grundvöllur þess að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt með ábyrga umfjöllun og gagnrýna hugsun að leiðarljósi. 

Ábati grunnrannsókna er næstum alfarið samfélagslegur, ófyrirsjáanlegur en þó ótvíræður, og því ætti hið opinbera að telja það forgangsatriði og skyldu að styðja við þær. Grunnrannsóknir eru almannagæði sem ríkinu ber að fjárfesta í svo að samfélagið allt fái að njóta þeirra, bæði í þeim ávinningi sem kemur fram efnahagslega sem og í bættum lífskjörum. 

Þessi mikla áhersla á síðari stig nýsköpunar og rannsókna í Aðgerðapakka 2 er nánast öll í þá átt að að styðja við framleiðslu- og tæknigreinar og nýsköpun á forsendum sem nýtast fyrirtækjum og undanskilur alveg grunnrannsóknir. Til samanburðar við þá fjárhæð sem veitt hefur verið aukalega til Rannsókna- og Innviðasjóðs, 700 m.kr., viljum við benda á að samkvæmt öðru frumvarpi sem einnig er hluti af Aðgerðapakka 2, frumvarpi um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (þingskj. 1255 – 726. mál), er lagt til að endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja geti numið allt að 900 m.kr. til hvers einstaks fyrirtækis, og því geta stök fyrirtæki fengið úr ríkissjóði endurgreiðslur sem eru hærri en öll viðbótin í Rannsókna- og Innviðasjóð.  

Vissulega mun aukið fjármagn til Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs, úr Aðgerðapakka 1 sem nemur 30% tímabundinni aukningu á fjármögnun þessara sjóða, nýtast að einhverju leyti til þessara rannsókna. Mikilvægt er þó að hafa í huga að úthlutanir af fjárlögum til Rannsóknasjóðs hafa um það bil staðið í stað síðan 2016 þrátt fyrir mikinn vöxt og fjölgun vísindamanna og grósku í íslenskum vísindum. Árangurshlutfall umsókna í sjóðinn var nú síðast komið niður í 14%, og hefur ekki verið lægra síðan árin rétt eftir efnahagshrunið 2008. Þetta sífellt lækkandi árangurshlutfall hefur valdið því að íslenskar grunnrannsóknir hafa orðið mun brotakenndari og viðkvæmari en ella og gildir þetta á öllum sviðum grunnrannsókna. Eigi sjóðurinn að halda í við íslenskt rannsóknarumhverfi og hlúa að því sem skyldi þyrfti að tvöfalda hann og gæta þess að hann haldi ávallt í við hagvöxt. 

Stór hluti styrkúthlutana Rannsóknasjóðs fer í launagreiðslur til ungs vísindafólks, bæði doktorsnema og nýdoktora, sem stendur nú, rétt eins og aðrir, frammi fyrir skraufþurrum atvinnumarkaði. Aukið fé í Rannsóknasjóð skilar sér þannig beint í fjölgun starfa fyrir ungt vísindafólk. Hið gjörbreytta samfélagsástand sem við búum nú við kallar á auknar rannsóknir í hug-, félags- og menntavísindum þar sem margar forsendur hafa breyst nánast á einum degi. Heimsmyndin er ný og margt sem miðað hefur verið við í eldri rannsóknum hefur úrelst á fáeinum vikum. Eins er mikilvægt nú sem aldrei fyrr að hlúa að rannsóknum í líf- og heilbrigðisvísindum. Og enn má nefna að grunnrannsóknir á öllum sviðum vísinda eru undirstaða alls vísindastarfs og við þá samfélagsuppbyggingu sem nú er ráðist í við þetta mikla áfall er áríðandi að láta þær ekki mæta afgangi. Þessar rannsóknir verða sjaldan gerðar í nýsköpunarvinnu fyrir fyrirtæki, en þau munu taka við keflinu þegar árangur grunnrannsóknanna sýnir sig. Einnig er rétt að benda á að tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn nýtast ekki í þessum tilgangi fyrir vísindafólk sem lokið hefur framhaldsnámi og sinnir sjálfstæðum rannsóknum, þótt þau geti vissulega verið kærkomin og gagnleg til að styðja við vísindafólk framtíðarinnar. 

Stjórn Vísindafélags Íslands fagnar því að ríkisstjórnin hafi hug á því að hlúa að þekkingarsköpun í landinu og hvetur því til þess að hugað verði betur að þeim sjóðum sem skapa undirstöðuna fyrir þekkingaröflun í landinu og leiða verði leitað til að styðja við starfsemi á öllum sviðum vísinda. 

Með vinsemd og virðingu, 

Stjórn Vísindafélags Íslands, 

Erna Magnúsdóttir, dósent við Háskóla Íslands 

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands 

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við Háskólann í Reykjavík 

Oddur Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri 

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands 

Snævar Sigurðsson, sérfræðingur við Háskóla Íslands 

Þórdís Ingadóttir, dósent  við Háskólann í Reykjavík