Grunnrannsóknir á Íslandi – skýrsla Vísindafélagsins, ReykjavíkurAkademíunnar og FEDON

Út er komin skýrslan Grunnrannsóknir á Íslandi sem unnin af Vísindafélagi Íslands, ReykjavíkurAkademíunni og FEDON, félagi doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands.  

Þar er farið yfir mikilvægi grunnrannsókna á Íslandi sem er meira en flestir gera sér grein fyrir, hagræn áhrif könnuð og staða málaflokksins kynnt eins og hún horfir við í dag. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi mikilvæga stoð vísindarannsókna og nýsköpunar á Íslandi er skoðuð með þessum hætti. Vonir standa til þess skýrslan upplýsi og veki áhuga á grunnrannsóknum og stuðli að viðurkenningu á þýðingu þeirra fyrir vísindasamfélagið, nýsköpun og þar með samfélagið allt. Stefnt  er  að því að slík skýrsla muni koma út annað hvert ár til að fylgjast með málaflokknum og kynna stöðu hans.  

Grunnrannsóknir eru rannsóknir sem eru framkvæmdar fyrst og fremst til þess að afla nýrrar þekkingar, án ákveðinnar notkunar eða hagnýtingar og eina leiðin sem við höfum til að afla alveg nýrrar þekkingar. Grunnrannsóknir eru helsta undirstaða framþróunar í öllum vísindagreinum og  gegna mjög margþættu menningarlegu, samfélagslegu og efnahagslegu hlutverki og eru hluti af þeim innviðum samfélagsins sem nýsköpun, hagnýting og þróun byggir á. Mikilvægi grunnrannsókna fyrir velsæld samfélagsins er því mjög víðtækt, þær eru undirstaða auðlegðar og framfara. Þetta endurspeglast meðal annars í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lögð er áhersla á menntun og vísindi. Vísindafólk á Íslandi þarf að hafa góða möguleika á að stunda grunnrannsóknir og fjárfesting í þeim getur haft víðtæk áhrif. Efling grunnrannsókna er líkleg til að hafa stórfelld jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar og hún er grundvallarforsenda góðs starfsumhverfis fyrir vísindafólk og frjósams jarðvegar fyrir nýsköpun.  

Ýmsu hefur verið ábótavant í fjármögnun grunnrannsókna undanfarna áratugi þrátt fyrir ítrekuð fyrirheit stjórnvalda, bæði þegar litið er til starfa reynslumikils vísindafólks og uppbyggingar fyrir ungt vísindafólk, svo sem gegnum doktorsnám. Síðastliðið ár hafa vonir vaknað um að þetta gæti færst til betri vegar, til dæmis vegna aukinna framlaga til rannsókna og þróunar á grundvelli nýsköpunarstefnu stjórnvalda en þó vantar sterkari skuldbindingu af hendi stjórnvalda svo grunnrannsóknir megi eflast. Mikilvægt er að þessu sé fylgt eftir á næstu árum þannig að grunnrannsóknir á Íslandi hljóti nauðsynlegan stuðning . 

Skýrsluna má nálgast hér.

Covid sem alheimsverkefni-hlekkur

Það er ljóst að Covid-19 faraldurinn snertir ekki aðeins einstaklinga og þjóðlönd heldur er hann alheimsvandi sem þarf að leysa með áður óþekktum aðferðum. Vísindafélag Íslands boðar til málþingsins „Covid sem alheimsverkefni“ þar sem fjallað verður um þær sameiginlegu áskoranir sem þjóðir heims standa frammi fyrir í kjölfar faraldursins. Málþingið hefst kl 12 á Zoom. Hér er hlekkur til að horfa en upptaka verður birt hér á heimasíðunni að því loknu.

https://eu01web.zoom.us/j/65231411477

Covid sem alheimsverkefni – málþing

Það er ljóst að Covid-19 faraldurinn snertir ekki aðeins einstaklinga og þjóðlönd heldur erum við að fást við alheimsvanda sem þarf að leysa með áður óþekktum aðferðum. Vísindafélag Íslands stendur fyrir málþingi þriðjudaginn 24. Nóvember á Zoom með yfirskriftinni „Covid sem alheimsverkefni“ þar sem fjallað verður um þær sameiginlegu áskoranir sem þjóðir heims standa frammi fyrir í kjölfar faraldursins.

Frummælendur eru:

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ, ræðir um siðferðileg álitamál sem upp hafa komið varðandi Covid

Hafdís Hanna Ægisdóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, ræðir umhverfismál í samhengi við heimsfaraldurinn

Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ talar um hóphegðun

Lisa Herzog, prófessor í heimspeki við University of Groeningen ræðir rammann um sanngjarna útdeilingu bóluefnis.

Fundarstjóri er Elmar Geir Unnsteinsson.

Athugið að málþingið fer fram á ensku.

Hlekkur verður settur hér inn að morgni fundardags og upptaka af málþinginu verður einnig aðgengileg á síðunni að því loknu.

Netfyrirlestur um friðarverðlaun Nóbels-hlekkur

Vísindafélag Íslands stendur fyrir fyrirlestri um friðarverðlaun Nóbels á fundaforritinu Zoom í dag kl 12. Þar munu þau Bryndís Eva Birgisdóttir prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Stefán Jón Hafstein, sendiherra Íslands hjá World Food Programme og FAO í Róm, segja frá starfsemi Matvælaáætlunar SÞ en stofnunin hlaut friðarverðlaunin í ár.

Hér er hlekkur á fundinn.

https://eu01web.zoom.us/j/62456183601

Nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrirlestur í dag og hlekkur



Þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Vísindafélags Íslands um
Nóbelsverðlaunin 2020 fer fram á Zoom klukkan 12.
Hér er hlekkur til að komast inn á fundinn.

https://eu01web.zoom.us/j/69052343431


Þar greinir Sigríður Rut Franzdóttir, dósent í líffræði við Líf – og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, frá rannsóknum nóbelsverðlaunahafanna í efnafræði, þeirra Emmanuelle Charpentier og Jennifer A. Doudna.


Nánar:
Nóbelsverðlaunin í efnafræði 2020 hljóta þær Emmanuelle Charpentier og Jennifer A. Doudna fyrir þróun DNA raðbreytingartækni sem hefur gjörbylt rannsóknum í lífvísindum á aðeins átta árum. Bakteríur eiga sínar sértæku varnir gegn veirum og öðru framandi erfðaefni, svokölluð CRISPR kerfi sem mætti kalla DNA-bókasafn minninga um fyrri sýkingar viðkomandi stofna. Kerfin byggja í stuttu máli á því að stýra rofi kjarnsýra á raðsértækan hátt með aðstoð RNA. Charpentier og Doudna sýndu fram á hvernig kerfið virkar í Streptococcus pyogenes og að hægt væri að einfalda og forrita kerfið til að klippa næstum hvaða tvíþátta-DNA sem er. Þetta var upphafið að CRISPR byltingunni en tæknin gerir vísindamönnum kleift að raðbreyta erfðaefni á markvissan hátt í nær hvaða lífveru sem er, t.d. til að fella út genavirkni, skjóta inn erfðaefni eða gera við galla í erfðaröðum. Horft er til þessarar tækni sem lækningaraðferðar en notkun hennar til að raðbreyta erfðaefni varanlega í kímlínu mannsins er umdeild. Tæknin hefur einnig opnað nýjar víddir í rannsóknum á genastarfssemi í lífverum sem ekki teljast til hefðbundinna tilraunalífvera. Mikil þróun hefur átt sér stað síðan 2012 og fjölmörg afbrigði CRISPR tækni hafa komið fram sem nýtast í ólíkum tilgangi. Charpentier og Doudna eru einungis sjötta og sjöunda konan til að hljóta Nóbelsverðlaun í efnafræði sem hafa verið afhent 112 sinnum frá árinu 1901 og er þetta í fyrsta skipti sem tvær konur deila verðlaununum.

Sigríður Rut Franzdóttir er dósent í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hún lauk BS gráðu í líffræði og síðar meistaraprófi í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands. Árið 2008 lauk hún doktorsprófi í líffræði frá Háskólanum í Münster í Þýskalandi, þar sem hún rannsakaði samspil taugafruma og fylgifruma í þroskun auga ávaxtaflugna. Frá árinu 2009 hefur hún starfað við Háskóla Íslands við kennslu og rannsóknir, með áherslu á greiningu á hlutverkum sameinda í taugafrumum, þroskun og þróun. Við rannsóknirnar er CRISPR tækni beitt til að framkalla og gera við sjúkdómsbreytingar í mannafrumum og til að útbúa verkfæri til smásjárgreiningar á hegðun stakra próteina innan fruma í lifandi ávaxtaflugum.


 

Netfyrirlestur um Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2020

Á morgun, miðvikudaginn 28. október mun Sigurður Ólafsson, sérfræðingur í meltingar – og lifrarsjúkdómum halda fyrirlestur á vegum Vísindafélagsins um Nóbelsverðlaunin í læknisfræði sem voru veitt fyrir rannsóknir á veirunni sem veldur lifrarbólgu C en Sigurður er einn helsti sérfræðingur landsins í meðhöndlun sjúkdómsins.

Fyrirlesturinn er hluti af árlegri fyrirlestrarröð Vísindafélagsins um Nóbelsverðlaunahafa hvers árs og verða fyrirlestrar næstu tvo miðvikudaga og föstudaga.

Fyrirlesturinn hefst kl 12 og fer fram gegnum fjarfundakerfið Zoom og þessi hlekkur https://eu01web.zoom.us/j/66356278006 vísar beint á hann.

Fyrirlestraröð um Nóbelsverðlaunin 2020

Hin árlega fyrirlestraröð félagsins um Nóbelsverðlaunin hefst næsta miðvikudag. Vegna Covid-19 mun hún fara fram á Zoom og munu hlekkir á hvern fyrirlestur birtast hér daginn áður en fyrirlestrarnir fara fram. 
Hér má sjá dagskrána en fyrirlestrarnir hefjast allir klukkan 12 á hádegi. 

Miðvikudagur 28. október
Sigurður Ólafsson,sérfræðingur í meltingarsjúkdómum og lifrarlækningum, kynnir Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 

Föstudagur 30. okt
Zhao-He Watse Sybesma,  nýdoktor við Raunvísindadeild HÍ, kynnir Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, í samstarfi við Eðlisfræðifélagið.

Miðvikudagur 4. nóvember
Sigríður Rut Franzdóttir, dósent við líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, kynnir Nóbelsverðlaunin í efnafræði

Föstudagur 6. nóvember
Bryndís Eva Birgisdóttir,  prófessor í matvælafræði við HÍ, kynnir Friðarverðlaun Nóbels

Vísindafélag Íslands ályktar um framtíð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Vísindafélags Íslands sendi frá sér umsögn vegna draga að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.

Vísindafélag Íslands er óháður félagskapur vísindamanna á öllum sviðum vísinda. Hlutverk þess er meðal annars að styðja vísindalega starfsemi, stuðla að samvinnu meðal aðila sem sinna vísindum og vinna að bættu starfsumhverfi vísinda hér á landi. 

Tilefni þessa bréfs eru drög að lagafrumvarpi um opingeran stuðning við nýsköpun á Íslandi sem felur í sér viðamiklar breytingar á þeirri starfsemi sem nú fellur undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Vísindafélag Íslands hefur þungar áhyggjur af því að þær aðgerðir sem kveðið er á í frumvarpinu séu ekki nógu vel ígrundaðar og feli í sér meiri skaða en ávinning fyrir nýsköpun og tækniþróun á Íslandi.   

Í frumvarpsdrögunum er kveðið á um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands skuli lögð niður og að hluta til verði í hennar stað stofnað óhagnaðardrifið einkahlutafélag, Nýsköpunargarðar, alfarið í eigu ríkisins. Ríkið mun veita Nýsköpunargörðum rekstrarfé og munu eignir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í formi tækja og búnaðar renna til hins nýja ríkisrekna einkahlutafélags.  

Nýsköpunargarðar munu taka við hluta af starfsemi og hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar en önnur verkefni verða ýmist lögð niður eða þeim dreift á aðra aðila. Þannig munu efnagreiningar verða í höndum MATÍS og gert er ráð fyrir að byggingarrannsóknir verði framkvæmdar á óskilgreindum stöðum í kerfinu,  fjármagnaðar af nýjum samkeppnissjóði í byggingariðnaði fyrir það fé sem áður var veitt beint til NMÍ.  

Vísindafélagið hefur áhyggjur af því að þessar aðgerðir lýsi miklum vanskilningi á eðli þekkingarstarfs. Við teljum mikla hættu á því að þessar aðgerðir muni vinna mikinn skaða á rannsóknarinnviðum á Íslandi. Þessir innviðir felast bæði í þeim tækjabúnaði sem til staðar er, sem og þeim samlegðaráhrifum sem felast í að reka þá á einum stað auk þeirrar þekkingar sem um rannsóknirnar skapast á þeim stað sem þær eru framkvæmdar. Með því að tvístra starfi NMÍ á svo marga staði er mikil hætta á að sú kunnátta og hæfni sem felst í mannauði stofnunarinnar glutrist niður og það taki langan tíma að byggja hana upp aftur. Vísinda- og rannsóknastarf er mjög háð því að samfella haldist í starfinu og þeim innviðum sem að því snýr og því þarf að stíga varlega til jarðar þegar starfsemi er lögð niður eða færð til innan kerfisins.  

Ekki er vel rökstutt í frumvarpinu að samkeppnissjóður fyrir rannsóknir byggingariðnaði muni sannarlega ná að gegna því hlutverki sem NMÍ gegnir nú. Ekki er sjálfgefið að það sé bolmagn og þekking til staðar annars staðar í kerfinu til þess að sinna því þjónustuhlutverki við byggingariðnaðinn sem NMÍ hefur gert til þessa. Hætta er á að ef fjármagninu er dreift á marga staði í smærri skömmtun verði meiri sóun í kerfinu en þegar þessum rannsóknum sé sinnt af stofnun með skilgreint hlutverk þar að lútandi sem hefur yfir nauðsynlegri þekkingu og tækjabúnaði að búa. Mun eðlilegra hefði verið að stóla áfram á þá kjarnastarfsemi sem felst í byggingarannsóknum NMÍ og bæta við samkeppnissjóði í geiranum til þess að auka sveigjanleika kerfisins. Þannig væri unnt að hámarka árangur með því að tryggja nauðsynlega kjarnastarfsemi en opna fyrir nýjar hugmyndir og þekkingarmyndun sem stofnunin sinnir síður.  

Það er heldur ekki augljóst að hlutverk NMÍ í rannsóknum sem snúa að efnagreiningum eigi betur heima í MATÍS en í NMÍ, og ekki vel rökstutt að sú stofnun hafi yfir nauðsynlegri reynslu og þekkingu að búa til þess að taka við því hlutverki.  

Stjórn Vísindafélags Íslands fagnar því að stjórnvöld hafi hug á því að hlúa að nýsköpun í landinu. Það er þó okkar mat að endurskipulagning stofnana eins og NMÍ þurfi lengri aðdraganda og betri ígrundun til þess að tryggja að ávinningurinn af aðgerðunum verði sannarlega meiri en mögulegur skaði af þeim.  

Aðalfundur Vísindafélagsins 20. maí 2020

Aðalfundur Vísindafélags Íslands var haldinn í Þjóðminjasafninu miðvikudaginn 20. maí síðastliðinn og var fundinum einnig streymt á fundaforritinu Zoom.

Fundarstjóri var Erna Magnúsdóttir, forseti félagsins, og fór hún yfir starfsemi ársins. Eyja Margrét Brynjarsdóttir, féhirðir, kynnti ársreikninga félagsins og einnig var kosið í stjórn þar sem þrír stjórnarmenn létu af stjórnarsetu, þau Oddur Vilhelmsson, Snævar Sigurðsson og Þórdís Ingadóttir og þakkar félagið þeim vel unnin störf. Í þeirra stað voru kosin þau Bylgja Hilmarsdóttir, Elmar Geir Unnsteinsson og Kristinn Pétur Magnússon. Ásamt þeim Eyju, Ernu og nýjum stjórnarmönnum sitja einnig í stjórn Eyjólfur Ingi Ásgeirsson ritari félagsins og Sigrún Ólafsdóttir.

Ennfremur var kjörinn nýr skoðunarmaður í stað Bjarnheiðar Guðmundsdóttur og var það Magnús Már Halldórsson en Halldór Ármannsson heldur áfram störfum fyrir félagið Voru Bjarnheiði einnig þökkuð vel unnin störf.

Rætt var um málþinga – og fræðslufundadagskrá félagsins það sem eftir lifir árs en hún hefur raskast töluvert vegna Covid-19 faraldursins það sem af er ári. Upplýsingar um viðburði á vegum félagsins munu eftir sem áður birtast á þessari síðu eftir því sem efni standa til.

. Að svo búnu var fundi slitið.