Vísindaskáldskapur sem rætist?

Málþing með yfirskriftinni Vísindaskáldskapur fortíðar – samfélagslegar áskoranir framtíðar verður haldið á vegum Vísindafélagsins í Þjóðminjasafninu föstudaginn 11. Október kl 12-15.

Vísindaskáldverk, bækur og kvikmyndir, segja til um hvernig framtíð sagnalistamenn sáu fyrir sér í ljósi þeirrar vísindaþekkingar sem þeirra samtími bjó yfir. Mörg þessara verka hafa reynst furðu sannspá og má þar nefna 1984 eftir George Orwell sem árið 1948 spáði fyrir um eftirlitssamfélagið og Brave New World eftir Aldous Huxley þar sem siðferðisspurningar varðandi erfðatækni voru bornar fram, en í báðum tilfellum er fjallað um mögulegar vísindaframfarir sem eru orðnar að veruleika í dag, veruleika sem setur fram ýmsar samfélagslegar og siðferðislegar áskoranir. Þá eru ótaldar fjölmargar heimsendaskáldsögur þar sem mannkynið hefur tortímt möguleikum sínum til farsællar búsetu á jörðinni. 

Vísindafélag Íslands efnir til málþings um vísindaskáldskap og vísindaþekkingu þar sem raunvísindamenn og hugvísindamenn ræða vísindaskáldskap og þær samfélagsáskoranir sem vísindaskáldskapurinn sá fyrir og eru nú raunveruleiki sem þarf að bregðast við.

Frummælendur verða:

Björn Þór Vilhjálmsson lektor í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við Háskóla Íslands:

Vísindaskáldskapur í fortíð, nútíð og framtíð

Vísindaskáldskapur hefur ávallt leitast við að nýta möguleika bókmenntaformsins til að spyrjast fyrir um þá framtíð sem tækni og vísindi gætu skapað jarðarbúum. Þeirri framtíðarsýn hefur þó ekki síður verið ætlað að glíma við samtímann enda býður sögusvið vísindaskáldskapar upp á opið rými til að fjalla um pólitísk, samfélagsleg og siðferðileg spursmál. Í erindinu verður fjallað um rætur bókmenntagreinarinnar á nítjándu öld og grein gerð fyrir þróun hennar á þeirri tuttugustu, auk þess sem vikið verður að samtímaáherslum. Sjónum verður ekki síst beint að viðhorfum til tækniþróunar og „spámennskuhlutverki“ greinarinnar, og þess hvernig vísindaskáldskaparhöfundar hafa jafnan tekist á við áskoranir síns samtíma. Þá verður einnig vikið að þróun vísindaskáldskaparmyndarinnar, en allt frá því að Georges Méliès gerði Le voyage dans la Lune (Ferðin til tunglsins) árið 1902 hefur vísindaskáldskaparmyndin verið samofin sögu kvikmyndalistarinnar. Með þeim furðuheimi sem Méliès bar á borð fyrir áhorfendur má segja að fram hafi komið kvikmyndagrein sem allar götur síðan hefur verið í framvarðasveit í tæknilegri framþróun miðilsins.

Erna Magnúsdóttir, dósent í líffræði við Háskóla Íslands

Er heimur GATTACA handan við hornið?

Árið 1997 kom bíómyndin GATTACA út og sló í gegn. Myndin fjallar um framtíðarsamfélag þar sem erfðamengi einstaklingsins segir allt um stöðu hans í samfélaginu, tækifæri og örlög. Myndin lýsir ákveðnum ótta við erfðatæknina sem spratt fram um miðja 20. öld og þróaðist hratt samhliða glasafrjóvgun á seinnihluta aldarinnar. Á þeim 22 árum sem liðin eru síðan GATTACA var frumsýnd hefur dregið til enn frekari tíðinda í erfðavísindum, stofnfrumurannsóknum og hjálparaðferðum við frjóvgun. Í fyrirlestrinum verða hugmyndir kvikmynarinnar um lagskipt þjóðfélag skoðaður með hliðsjón af þeim möguleikum sem nú virðast handan við hornið í erfða- og líftækni.

Sigurður Ingi Erlingsson professor í eðlisfræði við Háskólann í Reykjavík:

Hvernig virkar Heisenberg-leiðréttarinn?

Skammtafræðin hefur það orð á sér að vera illskiljanleg og jafnvel dularfull. Innan skammtafræðinnar rúmast mismunandi túlkanir sem hafa verið höfundum vísindaskáldsagna innblástur í gegnum tíðina. Í fyrirlestrinum verða helstu hugtök skammtafræðinnar útskýrð á aðgengilegan hátt. Tekin verða dæmi um notkun hugmynda skammtafræðinnar í vísindaskáldskap, þar sem misvel hefur tekist til. Að lokum verður aðeins fjallað um hvað framtíðin gæti borið í skauti sér varðandi hagnýtingu skammtafræðinnar, þar sem mörk vísinda og vísindaskáldskapar verða óljós.

Á eftir verða pallborðsumræður.

Fundarstjóri er Brynhildur Björnsdóttir bókmenntafræðingur.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Vel sótt málþing um framlag íslenskra vísindamanna til lausnar loftslagsvandans

Mynd af Brynhildi Davíðsdóttir
Brynhildur Davíðsdóttir, Ásuverðlaunahafi, talaði á málþinginu.

Föstudaginn 20. september var haldið málþing á vegum Vísindafélagsins undir yfirskriftinni Hvað getum við gert? Málþing um framlag íslenskra vísindamanna til lausnar loftslagsvandans.

Málþingið var hluti af Allsherjarverkfalli fyrir loftslagið sem stendur yfir í þessari viku.

Loftslagsmál og umhverfismál almennt eru framarlega í allri umræðu um þessar mundir enda stendur mannkynið frammi fyrir fordæmalausri vá af þessum völdum. 

Vísindafélag Íslands stóð í nóvember síðastliðnum fyrir málþingi undir yfirskriftinni “Umhverfismál á nýrri öld: Viðhorf Íslendinga til loftslags- og orkumála í evrópsku samhengi” þar sem fram kom mikill vilji til að blása baráttuanda í brjóst og sýna bæði hvernig vísindin eru að bregðast við hamfarahlýnun og einnig hvernig heimurinn gæti litið út ef okkur tekst að spyrna við fótum á einhvern hátt.  Því var ákveðið að halda annað málþing þar sem lausnir og jákvæð framtíðarsýn væri leiðarljósið að því gefnu að gripið verði til allra mögulegra ráða.

Erindi fluttu:

Brynhildur Davíðsdóttir, professor í umhverfis – og auðlindafræði við Háskóla Íslands og handhafi verðlauna úr Ásusjóði.

Umhverfisleg sjálfbærni, aukin lífsgæði?

Ísland er draumaland ferðamannsins sem hefur áhuga á að njóta óbeislaðra náttúruafla.  Á sama tíma eru Íslendingar heimsmeistarar í framleiðslu rafmagns á mann og losun gróðurhúsalofftegunda á mann er með því hæsta í heimi.  Íslendingar geta verið í fararbroddi þegar kemur að ábyrgð í umhverfismálum, svo sem með því að tryggja kolefnishlutleysi en hvað þarf til?  Hver er staða Íslands þegar kemur að umhverfislegri sjálfbærni, og hverjar eru horfurnar? Hvernig getum aukið okkar umhverfislegu sjálfbærni, og aukið lífsgæði á sama tíma?

Ólafur Arnalds, doktor í jarðvegsfræðum og professor við Landbúnaðarháskóla Íslands:

Fæðuforðabúr komandi kynslóða

Fá lönd jarðar hafa orðið jafnilla úti vegna jarðvegs- og gróðureyðingar og Ísland.  Það er þó eðli moldar hérlendis að binda meira kolefni en aðrar jarðvegsgerðir heimsins. Á Íslandi fer það saman að endurheimta gæði landsins, minnka losun gróðurhúsaloftegunda og að binda þær varanlega í frjósömum vistkerfum — sem jafnframt eru fæðuforðabúr komandi kynslóða.

Edda Sif Aradóttir Pind, doktor í forðafræði jarðhitakerfa og stjórnarformaður íslenskrar NýOrku.

Gas í grjót – CarbFix kolefnisbindingaraðferðin

Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað CarbFix kolefnisbindingaraðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila frá árinu 2007. CarbFix aðferðin er hagkvæm og umhverfisvæn aðferð sem beita má víðar hér á land og á heimsvísu til að binda varanlega koltvíoxíð úr útblæstri t.a.m. orku og iðnvera. Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, hefur nú rekið lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun samfellt í 5 ár með góðum árangri.

Þorsteinn Svanur Jónsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Klappir, grænar lausnir, segir frá starfsemi fyrirtækisins á vettvangi hugbúnaðarlausna og hvernig gagnsæi og góðar upplýsingar styðja við upplýstar ákvarðanir í umhverfismálum. Málþingið verður haldið í Þjóðminjasafninu föstudaginn 20. September og hefst kl 13:30 eða strax að loknum hádegismótmælum Allsherjarverkfalls fyrir loftslagið en nú stendur einmitt yfir mótmælavika þar sem fjölmargir viðburðir eru á dagskrá sem tengjast baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Málþingið var vel sótt og spunnust áhugaverðar umræður að framsögum loknum. Upptöku af stærstum hluta málþingsins má finna á Facebooksíðu Vísindafélags Íslands.

Ári lotukerfisins fagnað 4. september

Árið 2019 hefur verið valið ár lotukerfisins af Menningarmálastofnun sameinuðu þjóðanna, UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) og af því tilefni býður Vísindafélag Íslands til hádegisfyrirlestrar miðvikudaginn 4. september kl. 12 í Þjóðminjasafni Íslands.

Nú eru liðin 150 ár frá því að rússneski efnafræðingurinn Dmitri Ivanovich Mendeleev, birti fyrstur manna töflu yfir um það bil 60 frumefni, sem þá voru þekkt, á lotubundinn hátt háð efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum þeirra og nefndi hana Lotukerfið. Frumefnin eru undirstaða þess fjölbreytilega efnisheims sem umleikur okkur og við erum hluti af. Í erindinu verður stiklað á stóru um aðdragandann að tilurð frumeinda / atóma lotukerfisins í alheimi og nútíma sýn manna á eiginleika og innbyrðis skyldleika þeirra. Þá verður  reynt að varpa ljósi á hvernig hinar ýmsu frumeindir / atóm móta fjölbreytileika lífs og „lífleysu“ á jörðinni.

Fyrirlesari er Dr. Ágúst Kvaran, prófessor á sviði eðlisefnafræði við raunvísindadeild verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Vísindafélag Íslendinga verður Vísindafélag Íslands

Á framhaldsaðalfundi Vísindafélagsins sem haldinn var í Þjóðminjasafninu 26. júní síðastliðinn voru lagabreytingar stjórnar samþykktar einróma. Ein viðamesta breytingin er sú að nafni félagsins var breytt og heitir það nú Vísindafélag Íslands.

Það er trú stjórnar að með þessum lagabreytingum verði lagður enn sterkari grunnur að öflugu starfi félagsins í þágu vísindamiðlunar og lifandi umræðu um vísindi og vísindastarf á Íslandi.

Aðalfundur og málþing 29. maí 2019-upptaka

Aðalfundur Vísindafélags Íslendinga var haldinn 29. maí síðastliðinn. Þar voru á dagskrá hefðbundin aðalfundarstörf auk tillögu stjórnar að breytingum á lögum félagsins en þar bar hæst tillögu að breytingu á nafni félagsins, úr Vísindafélag Íslendinga í Vísindafélag Íslands.
Ekki reyndist nægileg mæting félagsmanna á fundinn til að lagabreytingar næðu fram að ganga og því verða lagabreytingar lagðar fyrir framhaldsaðalfund sem haldinn verður í lok júní.

Posted by Vísindafélag Íslendinga on Miðvikudagur, 29. maí 2019

Að fundinum loknum var blásið til málþingsins Nýsköpunarhæfni til framtíðar um þær áskoranir sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir með tilliti til framtíðar, og sérstaklega þegar kemur að aukinni tæknivæðingu samfélagsins. Frummælendur voru Kristjana Stella Blöndal, doktor í uppeldis- og menntavísindum sem fjallaði um stöðu starfsnáms hér á landi á framhaldsskólastigi með tilliti til þess hve fá ungmenni velja starfsnám og kynna rannsókn um afstöðu starfsnámsnemenda til náms og Haukur Arason, dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, sem ræddi þær áskoranir sem skólakerfið þarf að takast á við til að undirbúa íslenskt samfélag undir fjórðu iðnbyltinguna í ljósi undirliggjandi menntapólitískra átaka.

Að málþinginu loknu voru pallborðsumræður þar sem tóku þátt Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar og Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu – Tæknitorgs auk frummælenda. Umræðum stýrði Kristján Leósson, framkvæmdastjóri efnis-, líf- og orkutæknideildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands  sem jafnframt var fundarstjóri. upptaka frá málþinginu er hér með.

Þess má geta Kristján lét af stjórnarsetu í Vísindafélaginu á fundinum en hann hefur setið í stjórn frá árinu 2014. Sæti hans í stjórn tekur Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni við Háskólann á Akureyri.

Félagsfundur vegna lagabreytinga í Læknagarði 24. maí kl. 16

Kæru félagar í Vísindafélaginu,

félagsfundur verður haldinn í stofu 201 í Læknagarði föstudaginn 24. maí klukkan 16. Á dagskrá eru lagabreytingartillögur stjórnar en tímabært er að endurskoða lögin þar sem það var síðast gert 2009. Lagabreytingarnar má kynna sér hér.

Fundurinn er undirbúningsfundur fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður miðvikudaginn 29. mai kl. 11 í Þjóðminjasafninu. Þar verður auk venjulegra aðalfundarstarfa haldið málþing um vísindakennslu sem nánar verður auglýst síðar.

Með kveðju,
stjórn Vísindafélags Íslendinga

Aðalfundur 2018

Aðalfundur Vísindafélags Íslendinga verður haldinn fimmtudaginn 31. maí 2018 kl. 11:00 í sal Þjóðminjasafns Íslands.

Dagskrá:
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla forseta
Ársreikningar félagsins
Ákvörðun um félagsgjöld
Kosning stjórnarmanna
Kosning skoðunarmanna
Önnur mál

Að loknum aðalfundi verður boðið upp á kaffi og kl. 12:00 flytur síðan dr. Sigríður Sigurjónsdóttir erindi um fyrstu niðurstöður þeirra Eiríks Rögnvaldssonar í öndvegisverkefni um stafrænt sambýli íslensku og ensku en þau eru bæði prófessorar í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.