Aðalfundur Vísindafélags Íslands verður haldinn miðvikudaginn 20. maí 2020 kl. 12:00 í sal Þjóðminjasafns Íslands að því gefnu að reglur um samkomur breytist ekki. Einnig verður mögulegt að fylgjast með fundinum á fundaforritinu Zoom og verða nánari leiðbeiningar sendar félagsmönnum þegar nær dregur.
Stjórn Vísindafélags
Íslands hefur sent forsætisráðherra auk annarra ráðherra sem sitja í Vísinda-
og tækniráði, bréf í tilefni af stefnumörkun stjórnvalda sem ráðið vinnur að um
þessar mundir. Þar er áhyggjum lýst yfir vegna stöðu grunnrannsókna á Íslandi. Grunnrannsóknir
eru þær rannsóknir sem stundaðar eru með þekkingaröflun að meginmarkmiði án
þess að hagnýting sé beint takmark þeirra. Grunnrannsóknir eru jafnframt eina
aðferðin til að skapa alveg nýja þekkingu og eru þær því grunnforsenda allra
framfara. Mörg dæmi eru um það hvernig grunnrannsóknir nýtast á óvæntan hátt og
er CarbFix verkefnið, þar sem koltvíoxíð úr andrúmsloftinu er bundið í grjót,
gott dæmi um slíkt.
Í bréfinu segir
meðal annars að áhersla stjórnvalda á nýsköpun sé afar jákvæð en mikilvægt sé
að hafa í huga að grunnrannsóknir eru mikilvægur grundvöllur nýsköpunar, bæði
þegar kemur að þekkingaröflun og þjálfun vísindamanna í rannsóknarvinnubrögðum.
Bent er á að einungis 14% þeirra verkefna sem sóttu um styrki til
Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs fengu styrk í ár, sem þýðir að 86% verkefna
hlutu ekki brautargengi. Í þeim hópi sem ekki hlutu brautargengi segir sig
sjálft að leynast sprotar að uppgötvunum sem bæði myndu gagnast
nýsköpunargeiranum en ekki síður samfélaginu öllu auk þess að búa mögulega yfir
svörum við viðfangsefnum sem samfélagið stendur frammi fyrir í framtíðinni og
engin leið er að spá fyrir um í dag. Það hefur því auga leið að fjármögnun til
grunnrannsókna þarf að auka og tryggja.
Í bréfinu er
ennfremur bent á að samkvæmt svokölluðum Barcelona-viðmiðum aðildarríkja Evrópusambandisins
sé markmiðið að fjárfesting hins opinbera í rannsóknum og þróun eigi að vera 1%
af vergri landsframleiðslu (VLF) en að 2% eigi að koma frá einkaaðilum. Það er
raunhæft að Ísland, sem meðal annars er þátttakandi í rammaáætlunum Evrópusambandsins
um menntun, rannsóknir og tækniþróun, setji sér sama markmið, en fjárfesting
íslenska ríkisins í rannsóknum og þróun var 0.72% af VLF árið 2018.
Vísindafélagið leggur því höfuðáherslu á að ríkið auki fjárfestingu sína í
rannsóknum upp í 1% af VLF og að það framlag fari alfarið í grunnrannsóknir.
Vísindafélagið
leggur í bréfinu til eftirfarandi:
Fjármagn
Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs verði tvöfaldað í þremur skrefum á árunum
2021 – 2024, þannig að í sjóðinn verði bætt sem svarar um 800 milljónum á ári á
verðlagi dagsins í dag þar til heildarfjármögnun sjóðsins nái 5 milljörðum
árlega.
Að tryggt verði að
fjármögnun sjóðsins haldi í við efnahagsþróun. Lagt er til að fjármögnun
sjóðsins verði bundin við verga landsframleiðslu á svipaðan hátt og framlög
Íslands til rammaáætlunar Evrópusambandsins
Ríkið fari í
sértækar aðgerðir og ívilnanir til þess að hvetja til stofnunar einkasjóða og
fjárfestingar einkaaðila í grunnrannsóknum að fyrirmynd erlendra sjóða eins og
til dæmis Carlsberg-sjóðsins í Danmörku.
Fylgja þarf
fjárfestingu í grunnrannsóknum eftir þar til Ísland stendur jafnfætis
nágrannalöndunum í vísindafjármögnun.
Vísindafélag Íslands
styður þann metnað sem íslensk stjórnvöld hafa sett í fyrri stefnur og hvetur
til þess að Ísland verði áfram leiðandi í tækninýjungum og haldi
samkeppnisstöðu sinni á alþjóðavísu sem mun skila sér í áframhaldandi velsæld
og bættum hag samfélagsins alls.
Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright í ár fyrir brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og erfðum þeirra. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Vilmundi verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu föstudaginn 5. desember. Verðlaunin eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.
Vilmundur Guðnason hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar um 20 ára skeið og hann er einnig prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands með áherslu á erfðir hjarta- og æðasjúkdóma. Þá hefur hann verið gestavísindamaður við Centre for Cardiovascular Genetics hjá Royal Free og University College í London og hjá Institute of Public Health við Háskólann í Cambridge.
Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til þess að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi sjúkdómum, eins og hjarta- og æðasjúkdómum. Hann stýrir Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem byggist á hinni 50 ára löngu Reykjavíkurrannsókn og svokallaðri REFINE Reykjavík rannsókn hjá yngri aldurshópi. Gögn úr þessum rannsóknum hafa m.a. verið nýtt í alþjóðlegu samstarfi til þess að varpa skýrara ljósi á áhættþætti hjarta- og æðasjúkdóma og samstarfi við innlenda og erlenda aðila hefur hann birt fjölmargar vísindagreinar í þekktustu vísindatímaritum heims, m.a. um áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.
Nýjustu rannsóknir Vilmundar tengjast ýmsum þáttum öldrunar, allt frá beinþynningu til heyrnartaps, lungnasjúkdóma og bandvefsmyndunar í lungum, háþrýstings og æðakölkunar.
Hafa lagt grunn að fovörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum
Niðurstöður úr rannsóknum Hjartaverndar hafa enn fremur lagt grunninn að þekkingu á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og verið undirstaða markvissra forvarna gegn þessum sjúkdómum. Út frá rannsóknunum hefur enn fremur verið þróaður áhættureiknir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma sem er aðgengilegur á netinu.
Vilmundur og samstarfsfólk hjá Hjartavernd hefur hlotið fjölmarga styrki innan lands og utan til rannsókna, þar á meðal frá National Institute of Health og National Institute on Ageing í Bandaríkjunum, Rannsóknarsjóði Íslands og Evrópusambandinu. Hjartavernd hefur enn fremur átt í góðu samstarfi við háskóla, stofnanir og fyrirtæki hér á landi auk tuga rannsóknahópa í háskólum og stofnunum í Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og Asíu.
Auk þessa hefur Vilmundur leiðbeint fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi bæði hér á landi og erlendis. Hann er höfundur yfir 600 ritrýndra fræðigreina og er mjög oft vitnað til þeirra, eða hátt í 94.000 sinnum samkvæmt google.scholar. Niðurstöður úr rannsóknum þeim sem Vilmundur hefur unnið að hafa vakið mikla athygli í vísindaheiminum.
Vilmundur Guðnason er fæddur hinn 15. janúar 1954. Hann lauk BS-prófi og kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1985 og doktorsprófi í erfðafræði frá University College í London árið 1995. Eiginkona Vilmundar er Guðrún Nielsen myndhöggvari og eiga þau þrjá syni.
Þetta eru ekki fyrstu verðlaun Vilmundar því hann hlaut árið 2012 Nikkilä-minningarverðlaun Scandinavian Society for Atherosclerosis
Vísindafélag Íslands stendur fyrir málþingi um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum þann 15. nóvember næstkomandi milli 12 og 14 í Þjóðminjasafninu.
Opinn aðgangur (e. open access) er þekkt hugtak í umræðunni um rannsóknir og birtingar fræða- og vísindafólks og snýst um óheftan aðgang almennings, nemenda háskóla og fræða- og vísindafólks um allan heim að rannsóknarniðurstöðum sem unnar hafa verið fyrir almannafé. Þetta geta verið rannsóknir styrktar með fé úr opinberum sjóðum eða fé sem rennur til háskólanna af fjárlögum og fer að hluta til rannsóknarstarfa innan þeirra. Hugmyndafræðin um opinn aðgang er í grunninn einföld en krefst samtals innan vísindasamfélagsins því sú breyting sem hlýst af víðtækum opnum aðgangi veltir af stað menningar- og kerfisbreytingu sem mun hafa áhrif á störf vísindafólks hvarvetna.
Frummælendur verða Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona bókasafns og upplýsingaþjónustu Háskólans í Reykjavík, Sigurbjörg Jóhannesdóttir verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands og Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri hjá Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni. Í pallborði bætast við Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Einar Karl Friðriksson, efnafræðingur og einkaleyfaráðgjafi og Sóley Morthens þróunarstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun.
Fundarstjóri verður Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Vísindafélag
Íslands stendur fyrir fræðslufundi um nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum fyrir
árið 2018, Olgu Tokarczuk. Fundurinn fer fram
í Þjóðminjasafninu miðvikudag 30. Október milli 12 og 13.
Pólski rithöfundurinn Olga Tokarczuk hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir árið 2018 en verðlaunin voru ekki afhent í fyrra svo henni féllu þau í skaut í ár. Hún fæddist árið 1962 og telst til merkustu rithöfunda Evrópu. Fyrsta bók hennar kom út árið 1989, ljóðabókin Borgir í spegli en hún vakti fyrst athygli utan Póllands fyrir skáldsöguna Ur og aðrir tímar sem kom út árið 1996. Hún hlaut alþjóðlegu Man Booker verðlaunin 2018 fyrir skáldsöguna Flights.
Skrifum Olgu hefur verið líkt við bútasaumsteppi, þar sem hún blandar saman frásögnum af hversdagslífi, skissum og ritgerðum þar sem söguleg fortíð, samtíð og framtíð er látið speglast í ólíkum tímum sem og stöðugri endurtekningu þeirra gleði og sorga sem mannfólkið upplifir.
Ewa Marcinek, pólskur rithöfundur sem er búsett hérlendis mun segja frá Olgu Tokarczuk og verkum hennar. Fyrirlesturinn sem verður á ensku mun bera titilinn “Olga Tokarczuk. The maps of reality.”
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir
Vísindafélag
Íslands hefur frá árinu 2013 boðið almenningi upp á fræðsluerindi um
nóbelsverðlaunahafa hvers árs og rannsóknir þeirra. Erindin eru ætluð
almenningi til að kynnast því sem ber hæst í vísindum hverju sinni og eru öllum
opin auk þess sem þau verða aðgengileg á heimasíðu félagsins. Vísindafélagið
starfar óháð stofnunum og þvert á fræðigreinar og er því frjór vettvangur
vísindaumræðu í íslensku samfélagi.
Málþing með yfirskriftinni Vísindaskáldskapur fortíðar – samfélagslegar áskoranir framtíðar verður haldið á vegum Vísindafélagsins í Þjóðminjasafninu föstudaginn 11. Október kl 12-15.
Vísindaskáldverk,
bækur og kvikmyndir, segja til um hvernig framtíð sagnalistamenn sáu fyrir sér
í ljósi þeirrar vísindaþekkingar sem þeirra samtími bjó yfir. Mörg þessara
verka hafa reynst furðu sannspá og má þar nefna 1984 eftir George Orwell sem
árið 1948 spáði fyrir um eftirlitssamfélagið og Brave New World eftir Aldous
Huxley þar sem siðferðisspurningar varðandi erfðatækni voru bornar fram, en í
báðum tilfellum er fjallað um mögulegar vísindaframfarir sem eru orðnar að
veruleika í dag, veruleika sem setur fram ýmsar samfélagslegar og
siðferðislegar áskoranir. Þá eru ótaldar fjölmargar heimsendaskáldsögur þar sem
mannkynið hefur tortímt möguleikum sínum til farsællar búsetu á jörðinni.
Vísindafélag
Íslands efnir til málþings um vísindaskáldskap og vísindaþekkingu þar sem
raunvísindamenn og hugvísindamenn ræða vísindaskáldskap og þær
samfélagsáskoranir sem vísindaskáldskapurinn sá fyrir og eru nú raunveruleiki
sem þarf að bregðast við.
Frummælendur
verða:
Björn Þór
Vilhjálmsson lektor í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við Háskóla
Íslands:
Vísindaskáldskapur
í fortíð, nútíð og framtíð
Vísindaskáldskapur
hefur ávallt leitast við að nýta möguleika bókmenntaformsins til að spyrjast
fyrir um þá framtíð sem tækni og vísindi gætu skapað jarðarbúum. Þeirri
framtíðarsýn hefur þó ekki síður verið ætlað að glíma við samtímann enda býður
sögusvið vísindaskáldskapar upp á opið rými til að fjalla um pólitísk,
samfélagsleg og siðferðileg spursmál. Í erindinu verður fjallað um rætur
bókmenntagreinarinnar á nítjándu öld og grein gerð fyrir þróun hennar á þeirri
tuttugustu, auk þess sem vikið verður að samtímaáherslum. Sjónum verður ekki
síst beint að viðhorfum til tækniþróunar og „spámennskuhlutverki“ greinarinnar,
og þess hvernig vísindaskáldskaparhöfundar hafa jafnan tekist á við áskoranir
síns samtíma. Þá verður einnig vikið að þróun vísindaskáldskaparmyndarinnar, en
allt frá því að Georges Méliès gerði Le voyage dans la Lune (Ferðin til
tunglsins) árið 1902 hefur vísindaskáldskaparmyndin verið samofin sögu
kvikmyndalistarinnar. Með þeim furðuheimi sem Méliès bar á borð fyrir
áhorfendur má segja að fram hafi komið kvikmyndagrein sem allar götur síðan
hefur verið í framvarðasveit í tæknilegri framþróun miðilsins.
Erna Magnúsdóttir,
dósent í líffræði við Háskóla Íslands
Er heimur
GATTACA handan við hornið?
Árið 1997 kom
bíómyndin GATTACA út og sló í gegn. Myndin fjallar um framtíðarsamfélag þar sem
erfðamengi einstaklingsins segir allt um stöðu hans í samfélaginu, tækifæri og
örlög. Myndin lýsir ákveðnum ótta við erfðatæknina sem spratt fram um miðja 20.
öld og þróaðist hratt samhliða glasafrjóvgun á seinnihluta aldarinnar. Á þeim
22 árum sem liðin eru síðan GATTACA var frumsýnd hefur dregið til enn frekari
tíðinda í erfðavísindum, stofnfrumurannsóknum og hjálparaðferðum við frjóvgun.
Í fyrirlestrinum verða hugmyndir kvikmynarinnar um lagskipt þjóðfélag skoðaður
með hliðsjón af þeim möguleikum sem nú virðast handan við hornið í erfða- og
líftækni.
Sigurður Ingi Erlingsson
professor í eðlisfræði við Háskólann í Reykjavík:
Hvernig
virkar Heisenberg-leiðréttarinn?
Skammtafræðin
hefur það orð á sér að vera illskiljanleg og jafnvel dularfull. Innan
skammtafræðinnar rúmast mismunandi túlkanir sem hafa verið höfundum
vísindaskáldsagna innblástur í gegnum tíðina. Í fyrirlestrinum verða helstu
hugtök skammtafræðinnar útskýrð á aðgengilegan hátt. Tekin verða dæmi um notkun
hugmynda skammtafræðinnar í vísindaskáldskap, þar sem misvel hefur tekist til.
Að lokum verður aðeins fjallað um hvað framtíðin gæti borið í skauti sér
varðandi hagnýtingu skammtafræðinnar, þar sem mörk vísinda og
vísindaskáldskapar verða óljós.
Á eftir verða
pallborðsumræður.
Fundarstjóri er Brynhildur
Björnsdóttir bókmenntafræðingur.
Aðgangur er
ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.
Brynhildur Davíðsdóttir, Ásuverðlaunahafi, talaði á málþinginu.
Föstudaginn 20. september var haldið málþing á vegum Vísindafélagsins undir yfirskriftinni Hvað getum við gert? Málþing um framlag íslenskra vísindamanna til lausnar loftslagsvandans.
Málþingið var hluti af Allsherjarverkfalli fyrir loftslagið sem stendur yfir í þessari viku.
Loftslagsmál og umhverfismál almennt eru framarlega í allri
umræðu um þessar mundir enda stendur mannkynið frammi fyrir fordæmalausri vá af
þessum völdum.
Vísindafélag Íslands stóð í nóvember síðastliðnum fyrir
málþingi undir yfirskriftinni “Umhverfismál á nýrri öld: Viðhorf Íslendinga til
loftslags- og orkumála í evrópsku samhengi” þar sem fram kom mikill vilji til
að blása baráttuanda í brjóst og sýna bæði hvernig vísindin eru að bregðast við
hamfarahlýnun og einnig hvernig heimurinn gæti litið út ef okkur tekst að
spyrna við fótum á einhvern hátt. Því var ákveðið að halda annað málþing
þar sem lausnir og jákvæð framtíðarsýn væri leiðarljósið að því gefnu að gripið
verði til allra mögulegra ráða.
Erindi fluttu:
Brynhildur Davíðsdóttir, professor í umhverfis – og
auðlindafræði við Háskóla Íslands og handhafi verðlauna úr Ásusjóði.
Umhverfisleg sjálfbærni, aukin lífsgæði?
Ísland er draumaland ferðamannsins sem hefur áhuga á að
njóta óbeislaðra náttúruafla. Á sama tíma eru Íslendingar heimsmeistarar
í framleiðslu rafmagns á mann og losun gróðurhúsalofftegunda á mann er með því
hæsta í heimi. Íslendingar geta verið í fararbroddi þegar kemur að ábyrgð
í umhverfismálum, svo sem með því að tryggja kolefnishlutleysi en hvað þarf
til? Hver er staða Íslands þegar kemur að umhverfislegri sjálfbærni, og
hverjar eru horfurnar? Hvernig getum aukið okkar umhverfislegu sjálfbærni, og
aukið lífsgæði á sama tíma?
Ólafur Arnalds, doktor í jarðvegsfræðum og professor við
Landbúnaðarháskóla Íslands:
Fæðuforðabúr komandi kynslóða
Fá lönd jarðar hafa orðið jafnilla úti vegna jarðvegs- og
gróðureyðingar og Ísland. Það er þó eðli moldar hérlendis að binda meira
kolefni en aðrar jarðvegsgerðir heimsins. Á Íslandi fer það saman að
endurheimta gæði landsins, minnka losun gróðurhúsaloftegunda og að binda þær
varanlega í frjósömum vistkerfum — sem jafnframt eru fæðuforðabúr komandi
kynslóða.
Edda Sif Aradóttir Pind, doktor í forðafræði jarðhitakerfa
og stjórnarformaður íslenskrar NýOrku.
Gas í grjót – CarbFix kolefnisbindingaraðferðin
Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað CarbFix
kolefnisbindingaraðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila frá
árinu 2007. CarbFix aðferðin er hagkvæm og umhverfisvæn aðferð sem beita má
víðar hér á land og á heimsvísu til að binda varanlega koltvíoxíð úr útblæstri
t.a.m. orku og iðnvera. Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, hefur nú rekið
lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun samfellt í 5 ár með
góðum árangri.
Þorsteinn Svanur Jónsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Klappir, grænar lausnir, segir frá starfsemi fyrirtækisins á vettvangi hugbúnaðarlausna og hvernig gagnsæi og góðar upplýsingar styðja við upplýstar ákvarðanir í umhverfismálum. Málþingið verður haldið í Þjóðminjasafninu föstudaginn 20. September og hefst kl 13:30 eða strax að loknum hádegismótmælum Allsherjarverkfalls fyrir loftslagið en nú stendur einmitt yfir mótmælavika þar sem fjölmargir viðburðir eru á dagskrá sem tengjast baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Málþingið var vel sótt og spunnust áhugaverðar umræður að framsögum loknum. Upptöku af stærstum hluta málþingsins má finna á Facebooksíðu Vísindafélags Íslands.
Árið 2019 hefur verið valið ár lotukerfisins af Menningarmálastofnun sameinuðu þjóðanna, UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) og af því tilefni býður Vísindafélag Íslands til hádegisfyrirlestrar miðvikudaginn 4. september kl. 12 í Þjóðminjasafni Íslands.
Nú eru liðin 150 ár
frá því að rússneski efnafræðingurinn Dmitri Ivanovich Mendeleev, birti fyrstur
manna töflu yfir um það bil 60 frumefni, sem þá voru þekkt, á lotubundinn hátt
háð efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum þeirra og nefndi hana Lotukerfið.
Frumefnin eru undirstaða þess fjölbreytilega efnisheims sem umleikur okkur og
við erum hluti af. Í erindinu verður stiklað á stóru um aðdragandann að tilurð
frumeinda / atóma lotukerfisins í alheimi og nútíma sýn manna á eiginleika og
innbyrðis skyldleika þeirra. Þá verður
reynt að varpa ljósi á hvernig hinar ýmsu frumeindir / atóm móta
fjölbreytileika lífs og „lífleysu“ á jörðinni.
Fyrirlesari er Dr.
Ágúst Kvaran, prófessor á sviði eðlisefnafræði við raunvísindadeild verkfræði
og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.
Á framhaldsaðalfundi Vísindafélagsins sem haldinn var í Þjóðminjasafninu 26. júní síðastliðinn voru lagabreytingar stjórnar samþykktar einróma. Ein viðamesta breytingin er sú að nafni félagsins var breytt og heitir það nú Vísindafélag Íslands.
Það er trú stjórnar að með þessum lagabreytingum verði lagður enn sterkari grunnur að öflugu starfi félagsins í þágu vísindamiðlunar og lifandi umræðu um vísindi og vísindastarf á Íslandi.
Aðalfundur Vísindafélags Íslendinga var haldinn 29. maí síðastliðinn. Þar voru á dagskrá hefðbundin aðalfundarstörf auk tillögu stjórnar að breytingum á lögum félagsins en þar bar hæst tillögu að breytingu á nafni félagsins, úr Vísindafélag Íslendinga í Vísindafélag Íslands.
Ekki reyndist nægileg mæting félagsmanna á fundinn til að lagabreytingar næðu fram að ganga og því verða lagabreytingar lagðar fyrir framhaldsaðalfund sem haldinn verður í lok júní.
Að fundinum loknum var blásið til málþingsins Nýsköpunarhæfni til framtíðar um þær áskoranir sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir með tilliti til framtíðar, og sérstaklega þegar kemur að aukinni tæknivæðingu samfélagsins. Frummælendur voru Kristjana Stella Blöndal, doktor í uppeldis- og menntavísindum sem fjallaði um stöðu starfsnáms hér á landi á framhaldsskólastigi með tilliti til þess hve fá ungmenni velja starfsnám og kynna rannsókn um afstöðu starfsnámsnemenda til náms og Haukur Arason, dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, sem ræddi þær áskoranir sem skólakerfið þarf að takast á við til að undirbúa íslenskt samfélag undir fjórðu iðnbyltinguna í ljósi undirliggjandi menntapólitískra átaka.
Að málþinginu loknu voru pallborðsumræður þar sem tóku þátt Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar og Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu – Tæknitorgs auk frummælenda. Umræðum stýrði Kristján Leósson, framkvæmdastjóri efnis-, líf- og orkutæknideildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem jafnframt var fundarstjóri. upptaka frá málþinginu er hér með.
Þess má geta Kristján lét af stjórnarsetu í Vísindafélaginu á fundinum en hann hefur setið í stjórn frá árinu 2014. Sæti hans í stjórn tekur Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni við Háskólann á Akureyri.